Létu stjórnvöld moka ofan í nógu marga skurði?

Hvar erum við stödd í baráttunni við loftslagsbreytingarnar?
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Ríkisstjórnin lofaði að moka ofan í skurði og planta trjám til að binda kolefni og taka á stærsta losunarþætti landsins, þeirri urmull af gróðurhúsalofttegundum sem stígur upp úr mýrunum sem voru framræstar, margar fyrir ríkisstyrk, breytt í tún. Athæfi sem Halldór Laxness hneykslaðist á í ritgerð sinni „Hernaðurinn gegn landinu.“ En hvernig gekk? Náðu stjórnvöld að tvöfalda umfang skógræktar, er nú tífalt meira endurheimt af votlendi en árið 2018?

Stjórnvöld völdu sér tvær megináherslur í loftslagsmálum. Önnur þeirra sneri að breyttri landnotkun, endurheimt votlendis, uppgræðslu og skógrækt. Hin að orkuskiptum í samgöngum. 

Sjá einnig: Lítið má út af bregða ef orkuskiptamarkmið eiga að nást

Skógræktarstjóri telur ekki veita af fjórföldun

Stjórnvöld lýstu því yfir að árlegt umfang landgræðslu og skógræktar yrði tvöfaldað frá árinu 2018 til ársins 2022. Þá ætti að endurheimta mun meira votlendi en áður. Árið 2018 voru 45 hektarar endurheimtir en stjórnin lagði upp með að árið 2022 yrðu endurheimtir 500 hektarar framræsts mýrlendis ár hvert. Þessar aðgerðir eiga að vera stór liður í áformum ríkisstjórnarinnar um að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri, segir skógrækt hafa aukist mikið. „Það stefnir í að við náum að afhenda hátt í 6 milljónir plantna á næsta ári, það er tvöföldun þannig að það hefur nokkurn veginn gengið eftir.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri.

Þröstur hefði þó viljað gera meira og fá til þess meira fé. „Við lögðum til fjórföldun þannig að við getum ekki verið alveg ánægð, við töldum okkur geta það og það kannski kemur að því einhvern tímann. Við teljum ekki veita af ef við ætlum að verða kolefnishlutlaus árið 2040, það er stutt í það. Þannig að þó að aðgerðirnar séu miklu meiri en þær hafa verið áður þá skulum við bara kalla þetta góða byrjun.“

Kolefnisjafnarar redda skógræktarmarkmiði

Þröstur segir að tekist hafi virkja einkageirann til dáða, ríkisstjórnin hafi hvatt Skógræktina til að ráðast í aukið samstarf við fyrirtæki. Tvö erlend stórfyrirtæki greiði nú fyrir skógrækt á Íslandi og sjávarútvegsfyrirtæki séu farin að verja fjármagni til skógræktar til að kolefnisjafna sig. Annað þessara stóru erlendu fyrirtækja er góðgerðarfyrirtækið One Tree Planted, sem vinnur að því að safna fjármunum frá fyrirtækjum og einstaklingum til skógræktar viða um heim. Fimmtíu milljónir frá fyrirtækinu nýtast til skógræktar í Breiðdal.  Það hjálpar líklega að fyrirtæki geta nú lækkað skattstofn sinn um 0,75% af veltu með aðgerðum til kolefnisjöfnunar. „Þannig að það eru ekki bara skattgreiðendur sem borga, og þetta telst með í tvöfölduninni, ríkisframlagið nær ekki alveg að tvöfalda en fer langt með það,“ segir Þröstur. Það tekur tré einhverja áratugi að ná fullri bindingu og svo virðist sem hluta trjánna sem nú er verið að gróðursetja sé ætlað að kolefnisjafna losun fyrirtækja, hugsanlega losun sem þegar er orðin.

SONY DSC
 Mynd: Hreinn Óskarsson - hekluskogar.is
Hekluskógar hafa tekið vel við sér undanfarin ár.

Kolefnisskýrsla með skattskýrslunni

Þröstur segir árangur aðgerðanna ekki fullkomlega kominn í ljós. „Við eigum tiltölulega auðvelt með að meta árangur af skógrækt, við vitum hvað við gróðursetjum og eftir þrjú til fimm ár getum við metið lifunina en það tekur það langan tíma, það tekur enn lengri tíma í endurheimt votlendis því menn eru enn að afla grunngagna sem verður síðan hægt að nota til að reikna út árangurinn.“  Þá nefnir hann loftslagsvænni landbúnað og önnur verkefni sem hefur verið fundað um en óljóst hverju skila, „hvað ætla bændur að gera í landbúnaði til að hann verði loftslagsvænni? Það liggur ekki alveg fyrir,“ segir Þröstur. Hann vonar að áfram verði bætt í á næstu árum annars falli kolefnishlutleysið um sjálft sig. „Ef Ísland á að verða kolefnishlutlaust þurfa öll fyrirtæki og einstaklingar að verða það, við hljótum að þurfa að skila kolefnisskýrslu með skattskýrslunni okkar.“

„Bara verið klór fram að þessu“

Mynd með færslu
 Mynd: Landgræðslan/Facebook
Árni Bragason, landgræðslustjóri.

Árni Bragason, landgræðslustjóri, segir að ríkisstjórnin sé sú fyrsta sem kemur fram með heildstæða áætlun og fjármagnar hana. „Þetta hefur bara verið klór fram að þessu.“ Nú sé búið að fjármagna rannsóknir á bæði votlendi og þurrlendi og nauðsynlegur mannskapur til reiðu. Þá hafi endurheimt og landgræðsla aukist verulega. „Við vorum að planta kannski tugum þúsunda birkiplantna á ári í samstarfi við Skógræktina, nú fara út rúmlega milljón plöntur.“ Hann segir að endurheimt votlendis mætti ganga betur en að þar hafi líka orðið stakkaskipti. „Við erum á þessu ári að leggja mat á rúmlega 1000 hektara sem kemur til greina að endurheimta með Votlendissjóði. Við erum að reyna að velja bestu svæðin, þau sem skila bestum árangri, því mælingarnar okkar sýna að það er gríðarlega mikill breytileiki, sums staðar er losunin frá framræstu landi fimmfalt meiri en meðaltal Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál segja til um.“

Mynd með færslu
 Mynd: Landgræðslan/Facebook
Endurheimt votlendis.

Enn er miklu raskað

Landgræðslan hefur frá árinu 2016 endurheimt 382 hektara votlendis. Þá hefur Votlendissjóður endurheimt 72 hektara. Þessar tölur segja þó ekki til um heildarárangur, enn er verið að raska mýrum og votlendi með framræsingu og það hlýtur að koma til frádráttar. Árni veit ekki hversu mikið hefur verið ræst fram síðastliðin fimm ár en giskar á um 150 hektara af óröskuðum mýrum. Stjórnvöld hafa falið Umhverfisstofnun og Landgræðslunni að setja fram tillögur til að halda betur utan um þetta. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, segir að koma þurfi því betur á framfæri við landeigendur að framræsing sé leyfisskyld framkvæmd. 

Óljóst með efndir - ekki allir landeigendur til í þetta

Hvort markmið stjórnvalda um að endurheimta 500 hektara á ári frá og með næsta ári ganga eftir er óljóst en það felur í sér að meira yrði endurheimt árlega en síðastliðin fimm ár til samans. Árni vonar að þetta gangi en segir að enn standi svolítið á vilja landeigenda og víða verið að nota stór framræst svæði til hrossabeitar eingöngu. „Við erum svo langt frá því að vera einhver ógn við landbúnað, það er svo mikið kjaftæði þegar menn koma með svoleiðis fullyrðingar. Það er ekki búið að endurheimta nema tæplega hálft prósent af því landi sem hefur verið framræst og við stefnum að því á allra næstu árum að ná kannski að endurheimta 5%. Við ættum náttúrulega að taka miklu meira því þetta er langstærsti þátturinn í losun landsins. Við reyndar vitum ekki hversu mikið rofið mólendi losar en þær mælingar eru í gangi núna.“

Mynd með færslu
 Mynd: Landgræðslan/Facebook
Jarðvegsrof.

Árni  vonar að næsta ríkisstjórn skeri ekki niður fjárveitingar, því þá færi mikil undirbúningsvinna í súginn. 

Árangur í úrgangsmálum á eftir áætlun

 Losun frá úrgangi er ekki stórt hlutfall af þeirri losun sem stjórnvöld bera ábyrgð á að minnka fyrir árið 2030 en stjórnvöld lögðu töluverða áherslu á hana í aðgerðaáætlun sinni. Úrgangsmálin fá að vera með í þessari samantekt, enda svolítið skyld landnotkunarmálunum, hluti úrgangsins verður jú að nýjum jarðvegi og enn er stór hluti úrgangs grafinn í jörðu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Umhverfisstofnun
6% af þeirri samfélagslegu losun sem stjórnvöld bera ábyrgð á gagnvart Parísarsamkomulaginu skrifast á urðun úrgangs, þá einkum metanlosun frá rotnandi, lífrænum úrgangi.

Í annarri útgáfu aðgerðaáætlunar stjórnvalda í loftslagsmálum sem kom út síðastliðið sumar fá úrgangsmál og sóun aukið vægi. Gert var ráð fyrir því að losun frá úrgangi minnkaði strax árið 2018 og tæki svo stórt stökk niður á við árið 2022. Í heild á losunin að minnka um 66% fyrir árið 2030 miðað við viðmiðunarárið 2005. Bann við urðun lífræns úrgangs á að skila mestum árangri en sömuleiðis átti að muna um urðunarskatt, en sá skattur var aldrei lagður á. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Úr aðgerðaáætlun.

Árið 2018 nam losun frá úrgangi 276 þúsund tonnum af koltvísýringsígildum, árið 2019 var hún komin niður í 246 þúsund tonn en í fyrra jókst hún, um 12%, samkvæmt bráðabirðatölum Umhverfisstofnunar upp í 275 þúsund kílótonn, við erum því enn á sama stað og árið 2018, engin niðursveifla. Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar telur að það hefði munað um skattinn „Það er aðgerð sem líklega hefði skilað árangri mjög fljótt og nú hafa þeir sem starfa á þessu sviði kannski séð sér leik á borði og aukið losun,“ segir hún. 

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson
Blandaður úrgangur í Gas- og jarðgerðarstöð Sorpu.

Guðmundur Ingi, umhverfisráðherra, segir að spáð sé umtalsverðum samdrætti í losun frá úrgangi á næstu árum og þar muni langmest um bannið við urðun lífræns úrgangs sem sé þrisvar sinnum árangursríkara en urðunarskatturinn sem ekki tókst að leggja á. Það er þó ljóst að árangurinn kemur ekki fram strax á næsta ári, eins og til stóð, því bannið tekur ekki gildi fyrr en árið 2023. „Svona er þetta bara, ég myndi vilja að þegar maður ýtir á aðgerðatakkann þá skili þetta sér einn, tveir og þrír en í mörgum flokkum er það ekki þannig,“ segir hann. 

Þessi grein er sú þriðja af þremur þar sem reynt er að svara því hvort og þá hvaða árangri ríkisstjórnin náði í loftslagsmálum á kjörtímabilinu. Í fyrstu greininni var fjallað um aðgerðaáætlun og skort á gagnsæi og í annarri greininni var fjallað um hvernig orkuskiptum hefur undið fram á kjörtímabilinu

14.08.2021 - 08:25