Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sálardjassblúsinn dunar

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend

Sálardjassblúsinn dunar

13.08.2021 - 13:26

Höfundar

Einbeittur brotavilji er plata undir nafni Sálgæslunnar en höfundur laga og texta er Sigurður Flosason. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Það væri að æra óstöðugan ef ég ætlaði mér að gera grein fyrir framlagi Sigurðar Flosasonar til íslenskrar tónlistarmenningar, þó ekki væri nema í stuttu máli. Atfylgi hans hvað varðar kennslumál, tónlistarstjórn, félagsmál að ekki sé talað um sköpun – en plötur hans og samstarfsfólks hlaupa á tugum – er með miklum ólíkindum. Tónlistarlega hefur hann sinnt tiltölulega breiðu sviði, frá „hefðbundnum“ djass og spuna, út í klassík og sálmalög, svo eitthvað sé nefnt. Þessi plata hér er svo dæmi um hvar Sigurður leyfir sér að fara á gáskafullt hlemmiskeið. Skemmtan er miðlæg þó að framkvæmd og hugmyndavinna sé að sjálfsögðu metnaðarfull, eins og annað sem Sigurður kemur nálægt.

Einbeittur brotavilji er þriðja breiðskífa Sálgæslunnar, en fyrri plöturnar kallast Blásýra (2020) og Dauði og djöfull (2011) og segja titlarnir sitthvað um innihaldið. Í þetta sinnið eru sjö söngvarar í stafni og þvílíka einvalaliðið, þau Helgi Björnsson, KK, Andrea Gylfadóttir, Stefán Hilmarsson, Friðrik Ómar, Jógvan Hansen og Rebekka Blöndal.  Auk Sigurðar sem leikur á saxófón spilar Þórir Baldursson á Hammond-orgel, Einar Scheving á trommur og Andrés Þór Gunnlaugsson á gítar. Aðstoðarhljóðfæraleikarar eru Ari Bragi Kárason á trompet, Samúel J. Samúelsson á básúnu, Matthías Stefánsson á fiðlu og Bryndís Björgvinsdóttir leikur á selló.

Sigurður hefur sjálfur sagt plötuna liggja á mörkum djass, blús og sálartónlistar og það er alveg kórrétt hjá honum. Ég myndi bæta fjórða kryddinu við, poppi, en lögin eru áhlýðileg, grípandi og útvarpsvæn. Með-hummanleg (var ég að búa til nýtt orð!). Sönglausir kaflar olnbogast skammlaust um á djassrófi og dásemd að hlýða á orgel-spretti Þóris. Blúsinn fær að njóta sín, t.a.m. í söng (sjá glæst fítons-innslag Rebekku Blöndal í „Það er ekkert gefið“) og sálarlykkjurnar hlykkjast um framvinduna sömuleiðis. Þessi þríeining (ásamt fjórða kryddinu) býr til svigrúm sem Sigurður nýtir sér. Sum lagana eru fjörug, en það eru líka ballöður, hvort heldur fallegar eða tregablandnar. Sum lögin hallast meira að djassi, sum að blús, sum eru hefðbundin og sum með grallarahætti.

Textalega er platan nokkurs konar ræsisbálkur („gutter-poetry“), sungið um brennivínsberserki, eltihrella, siðleysingja og smákrimma eins og segir í tilkynningu og jaðarmenning hvers konar sett undir mælikerið, t.a.m. uppátækjasemi í kynlífi. Sigurður talaði líka um það í viðtali í Morgunblaðinu að bandarískur blús, og umfjöllunarefnin þar, hefðu orðin honum hugstæð og hann hefði viljað kanna hvernig þau færu íslenskum veruleika. Bókstafurinn F er lykilinn að mati Sigurðar; fangelsi, fyllirí, framhjáhald og ferðalög „og fimmta F-ið er jafn vel fjandinn sjálfur.“

Söngvarar standa sig firnavel verður að segjast og gefa lagasmíðunum þann blæ sem lagt er upp með. Platan opnar með „Góðkunningjar lögreglunnar“ þar sem Jógvan og Friðrik Ómar koma inn með „sjálfa sig“, glæða það einslags leikhúsbrag; eru fyndnir, hressir og sveiflan svínvirkar. Söngvarinn og leikarinn Helgi Björnsson syngur „Blátt líf“ með viðeigandi brag og nýtir sér menntun sína til fulls. Fyrsta línan er „slappur og sljór“ og Helgi gætir þess að halda sínum karakter á þeim nótum (orgel Þóris er einnig frábært í þessu lagi). „Ég hrópa og kalla daga alla lon og don/ Á doktor Tyrfingsson.“ Þetta er gott. Að sama skapi kemur KK sterkur inn með sína melankólísku værðarvoð í lokalaginu, „Batnandi mönnum er best að lifa“. Annað er eftir þessu, Andrea og Stefán leysa sín verk með sama snilldarbrag sömuleiðis. Allur hópurinn kemur síðan saman í hinu kerknislega „Við elskum að swinga“ sem býr að vissri Broadway stemningu sem dúkkar upp á plötunni hér og hvar.

Hér er m.ö.o. slett úr klaufum, textalega sem tónlistarlega. Platan gengur vel upp fyrir það sem hún er, hún er glettin og kankvís og tónlistin lætur vel í eyrum. Hér er ekki lagt upp með að brjóta blað, öllu heldur að nýta sér skapalón nefndra stefna til að búa til aðlaðandi verk sem fær fólk til að brosa og dilla sér, eitthvað sem tekst vel, enda framfærsla öll fagleg bæði og til fyrirmyndar.