Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fá 400 milljónir en sóttu um hátt í milljarð

13.08.2021 - 07:00
Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Einkarekin fjölmiðlafyrirtæki óska eftir rúmlega tvöfalt hærri fjárhæð í rekstrarstyrki úr ríkissjóði en standa til boða. Þrjú sækja um meira en lögbundið hámark.

Frestur einkarekinna fjölmiðlafyrirtækja til að sækja um sérstakan rekstrarstuðning vegna síðasta árs rann út um síðustu mánaðamót. Nefndin sem úthlutar styrkjunum kom saman í fyrsta sinn í gær og stefnir að því að ljúka úrvinnslu í kringum næstu mánaðamót.

Alls sóttu 22 fjölmiðlafyrirtæki um rekstrarstyrki úr ríkissjóði á grundvelli tímabundinnar löggjafar sem samþykkt var í maí. Samkvæmt þeim lögum og fjárlögum eru 400 milljónir króna til skiptanna og renna að hámarki hundrað milljónir í hlut hvers fyrirtækis. Umsóknir fjölmiðlafyrirtækjanna hljóma hins vegar upp á 878 milljónir króna samanlagt og þrjú fyrirtækjanna sækja um meira en hundrað milljónir króna. Því er ljóst að upphæðirnar sem fjölmiðlarnir fá skerðast verulega frá því sem þeir sækja um.