Börnum á aldrinum 12-15 ára verður boðin bólusetning dagana 23. og 24. ágúst. Börn sem verða 12 ára síðar á árinu, geta fengið bólusetningu síðar í haust. Á heimasíðu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins kemur fram að foreldri eða forráðamaður sem vill að barn sitt verði bólusett þarf að fylgja barninu í bólusetninguna, eða senda einhvern sjálfráða í sinn stað með umboð meðferðis.
Hvað ef foreldrar vilja ekki láta bólusetja barn, en barnið vill bólusetningu?
Eða ef barn vill ekki láta bólusetja sig en foreldrarnir vilja það?
En ef foreldrarnir eru innbyrðis ósammála, annar vill að barnið sé bólusett, hinn ekki og barnið er á milli steins og sleggju?
Salvör Nordal umboðsmaður barna leggur ríka áherslu á að það sé hlustað á vilja barnanna. Fjölskyldan verði að ræða saman og til þess þurfi að hafa góðar upplýsingar um ávinninginn og áhættuna. Hún bendir jafnframt á að ungmenni sem eru orðin 16 ára séu sjálfstæðir þjónustuþegar gagnvart heilbrigðiskerfinu og hafa því vald til að ákveða sjálf hvort þau vilji láta bólusetja sig eða ekki.
Nýlega voru birtar upplýsingar Landlæknisembættisins um bólusetningar barna og unglinga sem skrifuð eru fyrir ungmenni. Þær eru á íslensku og ensku.
Upplýsingar um bólusetningu barna í 7.-10. bekk hafa jafnframt verið birtar. Þar er meðal annars fjallað um sjaldgæfar aukaverkanir hjá ungmennum eins og bólgur í gollurshúsi og að verið sé að skoða hvort bólusetning með bóluefni frá Pfizer/BioNTech geti haft áhrif á tíðahring stúlkna. Upplýsingarnar eru á íslensku, pólsku og ensku.
Hér er nánar fjallað um bólusetningar barna og ungmenna í öllum landshlutum, rannsóknir, aukaverkanir og möguleika á yfirliði eftir bólusetningu barns. Upplýsingarnar eru á íslensku og ensku.