Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Við vorum nokkuð prúðir strákar“

Mynd: Íris Dögg Einarsdóttir / Íris Dögg Einarsdóttir

„Við vorum nokkuð prúðir strákar“

11.08.2021 - 07:36

Höfundar

Á hápunkti frægðarinnar fór miklum sögum af villtu líferni Mínus-liða. Sjálfir segja þeir sögurnar hafa verið nokkuð ýktar þó svo að freistingarnar hafi verið allt í kringum þá. „Þess vegna er fengið sér og stundum aðeins of mikið. En þetta var hluti af því að vera ungur í hljómsveit, að fá sér áfengi,“ segir Krummi Björgvinsson, söngvari Mínuss.

Árið 2003 gaf Mínus út plötuna Halldór Laxness. Platan sló strax í gegn hjá bæði hlustendum og gagnrýnendum. Við tóku stöðugar tónleikaferðir erlendis sem reyndu gjarnan á þolrif meðlima. Þeir sem skipuðu hljómsveitina á þessum tíma voru Krummi Björgvinsson, Frosti Logason, Bjarni Sigurðarson, Björn Stefánsson og Þröstur Jónsson. Þeir tveir fyrstnefndu mættu í þáttinn Geymt en ekki gleymt á Rás 2 þar sem þeir fóru yfir feril Mínuss og tilurð plötunnar.

Upphaf Mínuss má rekja til sameiningu tveggja hljómsveita, en strákarnir höfðu allir verið virkir í ýmsum hljómsveitum í gegnum árin. Frosti segist rekja upphafið til þess að hafa hitt þá Krumma og bassaleikarann Ívar Snorrason á tónleikahátíðinni Pönk 96 sem haldin var í Norðurkjallaranum í MH. Frosti segir þá félaga nánast hafa snúið upp á hendina á sér til að stofna hljómsveit með þeim.

Á þessum tíma gat reynst erfitt að finna hljóðfæraleikara með sama tónlistaráhuga og oft fór mikill tími í að leita uppi fólk sem hlustaði á svipaða tónlist. „Maður þurfti að leggja dálítið á sig að leita að fólki og kynnast því. Við fréttum að það væri hljómsveit sem hét Spitsign sem væri að hlusta á Deftones og fleiri hljómsveitir sem við vorum að hlusta á. Við fórum að sjá þá á Músíktilraunum og svo redduðum við símanúmerinu hjá Bjarna og hringdum í hann,” segir Krummi.

Eftir nokkur samtöl og vangaveltur ákváðu þeir að stofna hliðarverkefni sem varð að Mínus. „Fyrsta Mínus-æfingin var bara heima í svefnherberginu mínu. Þetta var eins og oft með góðar hljómsveitir sem verða til í mikilli gleði og hálfgerðum fíflagangi eiginlega. Það var ekki verið að taka sig mjög alvarlega. Svo varð þessi hljómsveit strax miklu meira spennandi og skemmtilegri heldur en þær tvær hljómsveitir sem við vorum í í sitt hvoru lagi,“ segir Frosti. 

Frosti og Krummi tóku einnig við nýjum hlutverkum í hljómsveitinni. Frosti hafði áður séð um að syngja en nú einbeitti hann sér algjörlega að gítarnum. Þá hafði Krummi alltaf verið trommari en eftir að Bjössi fór að spila með þeim varð Krummi að söngvara hljómsveitarinnar. „Mér fannst þegar ég kynntist Krumma að hann vildi alls ekki verða söngvari eins og pabbi sinn,” segir Frosti. En pabbi Krumma er stórsöngvarinn Björgvin Halldórsson. „Ég var á mótþróaskeiði,” segir Krummi.

Fyrstu æfingarnar gengu vel og fljótlega fór allur frítími þeirra í Mínus. Þeir tóku þátt í Músíktilraunum og báru sigur úr býtum. Í kjölfarið héldu þeir í hljóðver þar sem fyrsta breiðskífan, Hey Johnny, var tekin upp en hún kom út árið 1999 og hlaut góðar viðtökur. 

Mynd með færslu
 Mynd: Snorri Sturluson

Hróður sveitarinnar jókst enn frekar þegar platan Jesus Christ Bobby kom út árið 2001. Sú plata sló í gegn í neðanjarðarsenunni og erlend plötufyrirtæki kepptust um undirskrift Mínuss. Að lokum fór það svo að þeir skrifuðu undir samning hjá bandaríska plötufyrirtækinu Victory Records, sem var þeirra uppáhaldsplötuútgáfa. Tony Brummell, þáverandi eigandi Victory Records, hafði þá fengið Jesus Christ Bobby-plötuna og vildi ólmur semja við hljómsveitina. En platan hafði fengið frábærar viðtökur hjá rokkpressunni erlendis. „Þykir enn nokkuð merkilegt stykki í þessum geira,” segir Frosti.

Fékk ekki að hætta í Mínus

Áður en þeir hófu vinnu við Halldór Laxness þurfti að finna nýjan bassaleikara þar sem Ívar Snorrason sagði skilið við þá. „Ég man þegar Ívar vildi hætta í hljómsveitinni, hann var nú lengur í hljómsveitinni en hann vildi. Var orðinn þreyttur á þessu. Ég sagði við hann: „Nei, þú getur ekkert hætt. Þú lagðir hart að mér að koma í þetta hljómsveitarstúss með ykkur, þú getur ekkert hoppað frá borði núna.” Þannig að hann þurfti að vera lengur í Mínus en hann vildi,” segir Frosti. Að lokum fékk Ívar að hætta og Þröstur Jónsson gekk til liðs við Mínus. Frosti hafði upphaflega kynnst Þresti í gegnum tengingar við Austfirði þar sem Þröstur bjó. Þegar hann flutti til Reykjavíkur smellpassaði hann svo inn í hljómsveitina. „Uppmáluð rokkstjarna,” segir Krummi.

Á Halldóri Laxness kvað við nýjan tón og það vakti athygli að Krummi var farinn að syngja í stað þess að öskra. „Þetta er eiginlega Krummi sem tók það upp hjá sjálfum sér, þegar við vorum hátíðni-öskurhljómsveit á fyrstu tveimur plötunum. Svo var það lagið Frat Rock sem er á Jesus Christ Bobby-plötunni sem Krummi byrjaði að syngja í staðinn fyrir að öskra það,” segir Frosti.

Eitt fyrsta lagið sem þeir sömdu í þessum nýja stíl var Romantic Exorcism sem var jafnframt fyrsta smáskífan af Halldóri Laxness. „Í minningunni er Romantic Exorcism eitt af fyrstu lögunum þar sem við finnum einhvern tón sem smellhitti. Þetta verður alveg feikilega vel heppnað lag þótt ég segi sjálfur frá,” segir Frosti.

Útbitnir af skordýrum

Áður en platan sjálf kom út fór sveitin í tónleikaferð um Bandaríkin, en markmið ferðarinnar var bæði að kynna Jesus Christ Bobby og Halldór Laxness. Þetta var í raun síðasta tónleikaferð þeirra þar sem lúxusinn var lítill sem enginn. Þeir ferðuðust um Suðurríki Bandaríkjanna í bíl og þurftu oft á tíðum að redda sér gistingu sjálfir. „Síðan var bara spurt út í sal hjá hverjum við máttum gista hjá eftir tónleikana. Það var sofið á gólfinu og allir vöknuðu með köngulóar- og skordýrabit um allan líkamann,” segir Krummi. „Við vorum oft bara í heimahúsum í úthverfum Bandaríkjanna. Byrjaði á partíi þar til allir lognuðust út af. Svo vaknaði maður daginn eftir,” segir Frosti. 

Segja má að líf strákanna í Mínus hafi breyst töluvert þegar Halldór Laxness kom út en platan fékk alls staðar frábæra dóma. „Það voru fimm stjörnur úti um allt. Það kom okkur skemmtilega á óvart. Það voru fáránlega góðar viðtökur í rokkpressunni,” segir Frosti. Vinsælasta rokktímarit Evrópu, Kerrang, skrifaði mikið um hljómsveitina sem var greinilega í miklu uppáhaldi hjá starfsmönnum blaðsins. „Þetta var stærsta blaðið og þeir elskuðu okkur. Við skyldum ekki hvaðan á okkur stóð veðrið,” segir Frosti um aðdáun Kerrang á Mínus. „Það varð til einhver galdur, einhver neisti sem endist allan þennan tíma. Þetta var gengi sem ber þessa hættulegu áru með sér. Það var kraftur í þessu, ungæðisháttur. Það vildu allir bita af kökunni, Kerrang þar á meðal,” bætir hann við. 

Eftir útgáfuna urðu tónleikaferðirnar lengri en jafnframt veglegri. Þeir eru þó á því að matarmálin hafi oft verið í ólestri. „Þú borðar á klúbbnum sem þú ert að spila á. Þar færðu heitan mat. Þú færð líka brauð og álegg í hádeginu. Svo á hótelinu verður þú að vakna og taka morgunmatinn. Þetta var allt að reyna að bjarga sér eins mikið með mat og hægt er,” segir Krummi

Vinsældirnar urðu einnig meiri með hverri tónleikaferðinni og strákarnir voru fljótir að vinna sig upp frá litlum bíl og voru farnir að ferðast um á flottri rútu með kojum og Playstation-tölvum. „Við unnum okkur upp frá því að vera á gulum draslbíl með risagati í gólfinu. Þurftum oft að ýta honum í gang. Vorum á honum í tvö ár og unnum okkur svo upp í betri bíl og svo flottari og flottari rútur,” segir Krummi. Einn af hápunktunum var á Reading-tónlistarhátíðinni þar sem Mínus spilaði á stærsta sviði hátíðarinnar. „Þetta var magnað. Opnuðum stóra sviðið. Vorum sóttir á golfbíl og keyrðir upp á svið,” segir Krummi.

Ýkjusögur um villt líferni

Á þessum tíma birtust oft á tíðum fréttir af villtu líferni meðlima Mínuss en sjálfir segja þeir að sögurnar hafi oft verið ýktar ansi mikið. „Þetta leit út miklu verra en það var. Við vorum nokkuð prúðir strákar. En maður var ungur og að skemmta sér,” segir Krummi og bendir á að fyrst og fremst hafi þeir verið harðduglegir og áherslan hafi alltaf verið á tónleikana sjálfa en ekki skemmtanahaldið í kringum þá. 

Þá voru freistingarnar víða og eitthvað þurfti að gera til að drepa tímann á meðan beðið var eftir því að komast á svið. „Baksviðs er flaska af sterku og kassi af bjór. Á hverjum degi er þetta innbyrt með alls konar kokteilum. Það var hluti af þessu á þeim tíma,” segir Frosti. „Svo er oft bara bið. Þú kemur, berð allt inn og tekur hljóðprufu. Svo tekur við bið í sex til sjö klukkutíma þar til þú spilar. Þess vegna er fengið sér og stundum aðeins of mikið. En þetta var hluti af því að vera ungur í hljómsveit, að fá sér áfengi,” segir Krummi.

Misheppnað plötuumslag

Um það leyti sem Halldór Laxness kom út var hljómsveitin komin með útgáfusamning hjá Sony í Evrópu en forsvarsfólki þar leist ekki alveg nógu vel á umslagið fyrir Halldór Laxness og því var ákveðið að gefa plötuna út í Evrópu með öðru umslagi. „Eftir að við gerðum samning við Sony var umslaginu breytt til að gera hana söluvænni,” segir Frosti. 

Þeir voru þó aldrei fyllilega ánægðir með útgáfuna sem Sony gaf út og segja hana frekar misheppnaða. Fram að þeim tíma hafði hljómsveitin lagt metnað í ímynd sína og nýja umslagið féll ekki alveg innan þess ramma. „Þess vegna er þessi útgáfa sem Sony gerði í Evrópu frekar út úr kú. Þetta var ekki þessi Mínus-stíll þannig að við vorum aldrei 100% sáttir. En við létum þetta yfir okkur ganga fyrir frægð og frama,” segir Frosti.

Mynd með færslu
 Mynd: Mínus
Upprunarlegt umslag/Umslag Sony

Þreyttir á samstarfinu

Eftir að hafa ferðast nær linnulaust um heiminn var komin þreyta í mannskapinn og hljómsveitin ákvað að taka sér smá hlé sem varð svo miklu lengra en þeir ætluðu í upphafi. Eftir nokkur ár var svo komið að því að taka upp plötuna The Great Northern Whale Kill sem þeir eru misánægðir með. Skömmu síðar hættu Frosti og Þröstur í hljómsveitinni og síðan þá hefur lítið heyrst frá Mínus. Í dag eru þeir þó allir góðir vinir. „Með góðri hvíld þá eru þetta allt saman bræðurnir sem þú elskar. Með tímanum þykir manni aftur vænt um tímann sem maður var orðinn þreyttur á. Á heildina litið er þetta stórkostlegt ævintýri sem við áttum saman,” segir Frosti. 

Þeir vilja lítið gefa út um framtíðina en útiloka þó ekki frekara samstarf þótt ólíklegt sé að hljómsveitin fari aftur á fullt. „Ég veit ekki með okkur, upprunalega liðsskipan myndi gera eitthvað aftur. Ég efast um það en aldrei að segja aldrei,” segir Krummi. 

Nánar var rætt við Frosta og Krumma í þættinum Geymt en ekki gleymt á Rás 2.