Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hraðpróf komi ekki í stað sóttkvíar

11.08.2021 - 14:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Svokölluð hraðgreiningarpróf á kórónuveirunni eru mikið notuð víða í Evrópu við mismunandi aðstæður, meðal annars í skólum. Niðurstöður úr slíkum hraðprófum liggja alla jafna fyrir innan klukkustundar. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir hraðpróf hafa sína kosti en þau komi ekki í stað sóttkvíar hér á landi.

Í Bretlandi hefur til að mynda verið gripið til þess ráðs að láta skólabörn, sem hafa verið útsett fyrir smiti, gangast daglega undir hraðpróf. Þetta kemur fram á vef BBC. Niðurstöður, sem þó hafa ekki enn verið ritrýndar, virðast benda til að fjarvistum tengdum veirunni hafi fækkað meðal barnanna. 

Telur ekki æskilegt að gefa afslátt af sóttkví

Stór hluti smitaðra er ungt fólk en meðalaldur smitaðra er rúmlega 30 ár. Nú styttist í skólabyrjun hjá fjölmörgum börnum og ungmennum, miðað við tölur síðustu daga má ætla að hluti nemenda þurfi að vera í sóttkví ef þeir umgangast smitaða. Þórólfur segir að ekki sé æskilegt að gefa afslátt af sóttkví. Hún hafi verið þungamiðjan í baráttunni við kórónuveiruna og verði veittur af henni afsláttur megi búast við frekari útbreiðslu. 

„Málið snýst ekki bara um þá sem geta fengið væg einkenni, þeir geta borið veiruna áfram og smitað þá aðra; kennara, fjölskyldur, eldra fólk og fólk sem er óbólusett. Eins og staðan er núna finnst mér hæpið að við getum gefið mikinn afslátt á sóttkvínni. Það hefur verið kjarninn og þungamiðjan í því sem við höfum verið að gera; beita smitrakningu og sóttkví til þess að hamla útbreiðslu veirunnar,“ segir Þórólfur í samtali við fréttastofu og bætir við að fólk verði að gæta að persónulegum sóttvörnum. 

Hraðprófin gagnleg séu þau notuð rétt

Ekki er hægt að einblína á niðurstöður úr hraðprófum þrátt fyrir að þau geti reynst hjálpleg við ýmsar aðstæður, að sögn Þórólfs. Hraðpróf gefi aðeins til kynna stöðuna á fólki nákvæmlega á þeirri stundu sem prófið er tekið.

„Þessi próf hafa sína kosti og ókosti. Það tekur nokkra daga fyrir veiruna að vera greinanlega í nefkokinu. Svo ef prófið er tímasett á röngum tíma getur það gefið falsneikvæða niðurstöðu. Þannig það eru alls konar svona vankantar á svona prófum. Við getum ekki einblínt á það þannig að prófin muni koma í stað fyrir sóttkví, það er alls ekki svo, en þau geta verið hjálpleg í alls konar aðstæðum. Það þarf að koma með leiðbeiningar um hvernig svona próf og hraðgreiningarpróf eigi að nota í svona fyrirtækjum, þar á meðal skólum. Þau geta verið gagnleg ef þau eru bara notuð rétt,“ segir Þórólfur að lokum.