Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Forgangsverkefni að fá Spavor og Kovrig látna lausa

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Arnar Þórisson
Bandaríkjastjórn fordæmir fangelsisdóm þann sem kínverskur dómstóll felldi yfir kanadíska kaupsýslumanninum Michael Spavor í morgun. Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, krefst þess að Spavor verði umsvifalaust látinn laus.

Í yfirlýsingu sem Blinken sendi frá sér í dag segir að algerlega óásættanlegt sé að ríki geti með geðþóttaákvörðun notað fólk sem lóð á vogarskálar í milliríkjadeilum.

Kínverskur dómstóll dæmdi Spavor í morgun til ellefu ára fangavistar fyrir njósnir og öflun ríkisleyndarmála. Justin Trudeau, forsætisáðherra Kanada, lýsti því þegar yfir að dómurinn uppfyllti ekki lágmarkskröfur alþjóðalaga.

Blinken tekur undir þau orð og lýsir áhyggjum yfir hve lítt gagnsær allur málatilbúnaður Kínverja hefði verið. Forgangsverkefni væri að fá Spavor og Michael Kovrig, samstarfsmann hans, látna lausa.

Franska utanríkisráðuneytið tekur í sama streng og lýsir vanþóknun sinni á geðþóttalagi í niðurstöðu kínverskra dómstóla í máli Spavors og Robert Schellenberg sem dæmdur var til dauða fyrir njósnir. 

Spavor og Kovrig hafa verið í haldi Kínverja frá árinu 2018 en kanadísk stjórnvöld fullyrða að handtökur þeirra, ákærur og réttarhöld yfir þeim séu í hefndarskyni fyrir handtöku Mang Wanzhou, stjórnanda Huawei.

Ekki hafa enn borist fréttir af dómi yfir Kovrig en í gær staðfesti kínversku dómstóll dauðadóm yfir Kanadamann fyrir eiturlyfjasmygl.