„Það er enginn að gera heimildarmynd - sem er ótrúlegt“

Mynd: Ukulellur / Aðsend

„Það er enginn að gera heimildarmynd - sem er ótrúlegt“

10.08.2021 - 09:12

Höfundar

Píkuprump, dótakassi lesbíunnar, breytingarskeið og lesgleraugu eru á meðal yrkisefna hljómsveitarinnar Ukulellur. Um er að ræða þrettán hinsegin konur á öllum aldri sem hittast reglulega, spila á ukulele og semja tónlist um sín hugðarefni.

Hljómsveitin Ukulellurnar er samansafn af þrettán hinsegin konum sem spila saman á ukulele og syngja frumsamin lög sem tengjast hinsegin- eða kvenleikanum. Helga Margrét Marzelíusardóttir og Þóra Björk Smith eru báðar ukulellur og þær kíktu í Sumarmál á Rás 1 og sögðu frá hljómsveitinni, lagasmíðum og ævintýrum þierra.

Þær segja að nafnið hafi í raun orðið til á undan hljómsveitinni. Helga Margrét er kórstjóri Hinsegin kórsins sem var staddur á kórferðalagi í München þegar hópurinn hitti konur frá Ástralíu sem sögðust vera í ukulele-hljómsveit. „Þetta var bara lítið spjall í hótellobbíi,“ segir Helga. Ein í íslenska hópnum sem tók þátt í samtalinu fékk hugdettu og sagði um hæl: Ég er komin með of gott hljómsveitanafn til að stofna ekki hljómsveitina. „Það var hún Anna, og hún bjó til Facebook-grúppu, bauð í hana og sagði svo: Við erum að stofna hljómsveit, hún heitir Ukulellur og þið þurfið að kaupa ykkur ukulele.“

Beygði til hægri og bað um ukulele fyrir byrjendur

Þóra man vel eftir þessu en skildi sjálf ekki hvers vegna henni væri boðið í þennan hóp þar sem hún hefði sjálf aldrei snert ukulele og kunni ekki mikið á hljóðfæri. Hún taldi sig enda ekki hafa tíma til að vera í hljómsveit.  „Ég var upptekin á þessum tíma í lífi mínu og ætlaði að hundsa þetta,“ segir hún.

Þóra starfar í Brautarholti og á svipuðum tíma og fyrsta æfingin var boðuð var hún á leið heim úr vinnu þegar hún tók skyndiákvörðun. „Ég beygi til hægri og fer í hljóðfærabúðina sem er þar, spyr hvort hann eigi ukulele fyrir byrjendur,“ segir hún.

Maðurinn í versluninni fann hljóðfærið fyrir hana og hún bað hann í snatri að stilla það fyrir sig, „því ég er að fara á æfingu,“ rifjar Þóra upp og hlær. „Svo er til mynd af mér með verðmiðann hangandi niður.“

Síminn logaði eftir fyrsta giggið

Þær kunnu lítið á hljóðfærið en æfðu strax upp eitt lag með þremur eða fjórum gripum. Það leið þó ekki langur tími áður en þær tróðu upp í afmæli einnar ukulellurnar og vakti flutningurinn mikla lukku. „Í afmælinu er staddur Felix Bergsson sem setur þetta inn á samfélagsmiðla. Eftir afmælið förum við að fá símhringingar þar sem fólk er að panta okkur á ýmsa viðburði,“ segir Þóra. Þá var ekki aftur snúið.

Helga segir að ljóst sé að hljómsveitin stefni á landvinninga og útgáfusamninga. Sjálf er hún eina starfandi tónlistarkonan í hópnum en kveðst ekki hafa nein völd, ekki nokkur einustu. „Ég er bara beðin um að hafa mig hæga ef slíkir tilburðir koma upp,“ segir hún sposk. „En ég hef fengið að semja nokkur lög og þær þá texta við.“

Ukulellur eru kynslóðabil

Hópurinn er á leið til Danmerkur þar sem þær munu koma fram á World Pride í Danmörku. „Við erum að fara að spila í Tivoli og erum komnar með herbergi baksviðs. Þetta verður ekki toppað. Það er enginn að gera heimildarmynd sem er ótrúlegt,“ segir Helga.

Lög hljómsveitarinnar fjalla að mestu leyti um reynsluheim lesbía og miðaldra kvenna en þónokkur aldursmunur er á yngstu og elstu meðlimunum. „Í raun eru Ukulellur kynslóðabil. Vilji fólk sjá hvað kynslóðabil er má bara horfa á þessa hljómsveit,“ segir Helga.

Bestu vinkonur þó fjörutíu ár skilji að

Þóra og Helga eru á meðal yngstu meðlima Ukulella en það eru um 40 ár á milli þeirrar yngstu og elstu. „En við erum bestu vinkonur,“ segir Helga. „Og við megum syngja um allt. Við höfum sungið um lesgleraugu og breytingarskeið og mér þykir æðislegt að gera það með þeim.“

Ukulellur eiga lag á ensku sem nefnist Lesbian in the crowd og fjallar um nokkuð sem þær tengja allar við. „Lagið er um það að þú fréttir að þú sért að fara í aðstæður og það sé lesbía þar. Það snýst um að þú gangir inn og sért að leita að lesbíunni og hugsa: ætli hún sé svona, ætli hún muni uppfylla allar staðalímyndir lesbíunnar, ætli hún sé bara ósköp venjuleg?“ Annað samnefnt lag fjallar um dótakassa lesbíunnar, „skrúfur, skrall og hamar um staðalímyndina af lesbíu sem á fullt af verkfærum,“ segir Þóra. „Og uppáhaldsstaðurinn er Byko,“ skýtur Helga inn í.

Eitt frægasta lag þeirra fjallar um skemmtistaðinn 22 heitinn og pikköpplínur sem þar voru brúkaðar. „Þegar við vorum fá og skiptumst á,“ vísar Þóra í textann. „Lesbían fór að skemmta sér og hitti hinar tvær sem voru úti á þeim tíma.“

Fengu beiðni um að syngja um píkuprump

Nýjasti smellur þeirra heitir hins vegar Píkuprump. Tilurð lagsins var sú að Bragi Valdimar Skúlason samdi ljóð um fyrirbærið eftir að hópur fólks hafði óskað eftir meira viðeigandi orði yfir það. Hann kallaði þá eftir hugmyndum og samdi ljóðið. „Við fáum beiðni frá aðdáendum að gera lag við þetta því það væri tæpt að aðrir færu að syngja um píkuprump.“ Helga samdi lagið og Bragi lagði blessun sína yfir að textinn væri notaður. „Lagið er eftir mig, textinn eftir Braga í flutningi Ukulella.“

Rætt var við Ukulellur í Sumarmálum á Rás 1.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Stundum mæta engin ættmenni í samkynja brúðkaup

Menningarefni

„Mig langaði frekar að vera prinsessan en prinsinn“