Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Veikindi bólusettra ráða sóttvarnaaðgerðum

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Á næstunni fá sóttvarnayfirvöld upplýsinga um hversu alvarleg veikindi bólusettra hafa orðið af delta-afbrigðinu. Þá verður ákveðið hvort óhætt sé að leyfa veirunni að ganga óheftri. Staðgengill sóttvarnalæknis vonast til að bóluefni gegn delta-afbrigðinu verði komið á markað á næsta ári. 

Tuttugu og sex liggja á Landspítalanum vegna kórónuveirusmits. Þar af eru tveir í öndunarvél á gjörgæsludeild. Hundrað og sex smit greindust innanlands í gær. Sextíu og tvö þeirra voru utan sóttkvíar eða 58%. 

Ráðleggingar sóttvarnalæknis til heilbrigðsráðherra um sóttvarnaaðgerðir eru tvíþættar. Annars vegar eru í gildi sóttvarnir innanlands sem beinast að yfirstandandi bylgju. Þetta eru til að mynda tvö hundruð manna samkomubann og eins metra regla. Þessar aðgerðir falla úr gildi á miðnætti á föstudagskvöld. Samkvæmt upplýsingum frá sóttvarnalækni hefur hann sent ráðherra minnisblað vegna skammtímaaðgerða og í því er ekki að finna beinharðar tillögur.

Þessu til viðbótar horfir sóttvarnalæknir til aðgerða lengra fram í tímann. Hann hefur sent ráðherra minnisblað um slíkar aðgerðir.

Hvað er hjarðónæmi?

Töluverð umræða spannst um hjarðónæmi um helgina og hvernig best væri að ná því hjá þjóðinni.

„Hjarðónæmi er það þegar ákveðinn hópur er með það mikið mótstöðuafl gegn einhverjum sjúkdómi að þó að smit berist inn í þann hóp þá nær það ekki útbreiðslu,“ segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis.

Bóluefnin sem notuð hafa verið hér veittu góða vörn gegn upprunalegu veirunni.

„En svo kom delta-afbrigðið og þá minnkaði mótstöðuaflið gegn henni og við misstum í raun þetta hjarðónæmi sem við höfðum unnið okkur inn,“ segir Kamilla.

Má sleppa veirunni óheftri?

Þó veiti bóluefnið flestum vörn gegn alvarlegum veikindum. Kamilla segir að nú sé safnað upplýsingum um hvernig sjúkdómurinn leggst í bólusetta og vonast hún til að þær liggi fyrir mjög fljótlega. Þær hjálpi sóttvarnayfirvöldum að svara þessari spurningu:

„Eru nógu margir nógu vel varðir til þess að það sé á það hættandi að leyfa veirunni að ganga óheftri? Við erum ekki komin með gögn sem segja okkur það en það getur verið að við fáum þau á næstunni. En við þurfum samt líka að muna að innan þess hóps sem hefur fengið bólusetningu eru líka einstaklingar sem svara henni ekki á fullnægjandi hátt,“ segir Kamilla. 

Þetta er elsta fólkið og fólk með undirliggjandi ónæmisvandamál. Þá er líka fólk með bráðaofnæmi sem ekki má þiggja bóluefni. 

„Þannig að það er kannski ekki alveg forsvaranlegt að leyfa veirunni bara að ganga óheftri en það er mögulegt að forgangsraða og setja hamlanir á þá staði þar sem þessi einstaklingar eru líklegir til að vera,“ segir Kamilla.

Bóluefni gegn delta á næsta ári

Lyfjafyrirtæki vinna nú að því að breyta bóluefnaformúlum þannig að þær bíti gegn delta-afbrigðinu en ekki er búist við því á markað fyrr en á næsta ári. Kamilla segir að það hafi verið í prófunum í um mánuð. Þar sem þetta er breyting á bóluefni er viðbúið að markaðsleyfi fáist fyrr en ef um nýtt lyf væri að ræða.

Er til skoðunar þá að þeir sem eru viðkvæmir, fólk með undirliggjandi sjúkdóma, aldraðir, langveik börn, að þau verði í sóttkví fram á næsta ár?

„Það er ekki opinber stefna. Þess vegna eru þessar takmarkanir sem þó eru núna. En í rauninni fylgir að ef ekki eru strangari hamlanir í samfélaginu að þá þurfa þeir sem eru viðkvæmari fyrir að ganga skrefinu lengra í sínum eigin persónulegu sóttvörnum. Það getur því miður verið á þann veg að þeir séu að hitta ennþá færri og fari minna og geri minna heldur en allur almenningur. Það er náttúrulega ekki skemmtileg aðstaða,“ segir Kamilla.

Það gæti verið að það sé staðan hjá þeim?

„Það er mögulegt og jafnvel líklegt eins og staðan er núna,“ segir Kamilla.

Tvennt gæti kallað á harðari aðgerðir

Kamilla segir að þær upplýsingar sem liggi fyrir núna kalli ekki á harðari sóttvaarnaaðgerðir. Tvennt þurfi til að breyta því. Annars vegar að veikindi í ákveðnum hópum, til að mynda hjá íbúum hjúkrunarheimila, séu mikil og hins vegar að of mikil álag á innviði. Mikið álag er á Covid-göngudeild Landspítalans og sjúkraflutningar vel á annað hundrað á sólarhing. Kamilla segir að Landspítalinn þurfi að láta vita þegar þolmörkum sé náð. 

Þau skilaboð hafa ekki ennþá komið?

„Ekki mér vitanlega,“ segir Kamilla.