Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hverjir eru þeir þessir talibanar?

epa08444911 Taliban members attend a ceremony at the Governor's office after being released by authorities, in Herat, Afghanistan, 26 May 2020. Three Taliban members have been released in Herat after Afghan President announced that his government will free some 900 more Taliban prisoners. The prisoner swap process of 5,000 Taliban in exchange for 1,000 prisoners of the Afghan government is a must to be done before starting intra-Afghan talks between Kabul and the Taliban as per the US-Taliban agreement, signed in Doha last February. So far the government has released 1,000 of the 5,000 Taliban prisoners and the Taliban released few hundreds of the 1,000 prisoners of the government in a unilaterally and slow prisoner swap process.  EPA-EFE/JALIL REZAYEE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Uppgangur afgönsku talibanahreyfingarinnar hófst á tíunda áratugnum og lyktaði með því að stærstur hluti Afganistan féll undir stjórn hennar. Talibanar voru hraktir frá völdum í aldarbyrjun en sækja nú mjög í sig veðrið að nýju.

Óhætt er þó að fullyrða að hugmyndin að hreyfingunni kviknaði meðan á hernaði Sovétríkjanna stóð í Afganistan frá 1979 til 1989.

Talibana, en heitið merkir nemendur eða lærisveinar, varð fyrst vart í norðurhluta Pakistan snemma á tíunda áratugnum eftir brotthvarf sovésks herliðs frá Afganistan.

Talibanar eru súnní múslímar og réðu ríkjum í landinu frá 1996 þar til þeir lutu í lægra haldi fyrir innrásarher vesturveldanna í kjölfar hryðjuverkaárásanna í Bandaríkjunum árið 2001.

Meirihluti múslíma í heiminum eru Súnnítar sem urðu til við klofning íslam á sjöundu öld í súnní og sjíta. Afstaða súnní er sú að Múhammeð hafi verið síðasti spámaðurinn en að einhver skuli taka við veraldlegu hlutverki hans sem leiðtogi múslíma.

Hreyfingin færist í aukana og nær völdum

Mulla Omar, sem lést 2013, er talinn hafa stofnað hreyfinguna árið 1994 þegar hann fór fyrir hópi stúdenta sem snerust gegn stjórnvöldum í Afganistan.

Pakistanar og Sádar studdu hreyfinguna fjárhagslega sem naut mikils stuðnings almennings til að byrja með. Loforð talibana var að koma á friði og treysta öryggi í landinu að nýju.

Sömuleiðis hétu þeir innleiðingu Sjaría-laga næðu þeir völdum. Hernaður talibana færðist fljótlega mjög í aukana, þeir sölsuðu Kandahar og þriðjung landsins undir sig 1994, borgina Herat árið 1995 og þeir hertóku höfuðborgina Kabúl í september 1996.

Þá lýstu talibanar yfir stofnun íslamsks emírdæmis í Afganistan og þegar í stað var dregið mjög úr mannréttindum og ekki síst réttindum kvenna. Átök héldu áfram í landinu en hið svokallaða Norðurbandalag reyndi að hrifsa völdin af talibönum án árangurs.

Þó fór svo að eftir að talibanar neituðu að framselja Osama bin Laden náði bandalagið öllu Afganistan undir sig fyrir lok ársins 2001 með fulltingi Bandaríkjanna. 

Enn virðist stefna í valdatöku talibana

Talibanar sleiktu sárin í nokkur ár en færðust í aukana um miðjan fyrsta áratug aldarinnar.

Bandaríkjaher er nú á förum frá Afganistan eftir tuttugu ára dvöl og talibanar nýttu tækifærið og sækja nú fram á mörgum vígstöðvum. Óttast er að án frekari stuðnings vesturveldanna verði landvinningar talibana enn meiri.

Þeir hafa náð undir sig stórum landsvæðum og sex héraðshöfuðborgum. Friðarviðræður hafa staðið yfir milli afganskra stjórnvalda og talibana mánuðum saman án nokkurs árangurs.