Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Brennuvargur grunaður um að hafa myrt kaþólskan prest

09.08.2021 - 14:16
Fire fighters brigade work to extinguish the blaze at the Gothic St. Peter and St. Paul Cathedral, in Nantes, western France, Saturday, July 18, 2020. The fire broke, shattering stained glass windows and sending black smoke spewing from between its two towers of the 15th century, which also suffered a serious fire in 1972. The fire is bringing back memories of the devastating blaze in Notre Dame Cathedral in Paris last year that destroyed its roof and collapsed its spire and threatened to topple the medieval monument. (AP Photo/Laetitia Notarianni)
 Mynd: Laetitia Notarianni - AP images
Maður ættaður frá Rúanda sem hefur játað að hafa borið eld að dómkirkjunni í Nantes síðastliðið sumar er jafnframt grunaður um hafa orðið kaþólskum presti í Vendée sýslu að bana í dag.

AFP-fréttastofan hefur eftir heimildamanni, tengdum rannsókn málsins, sem ekki vill láta nafns síns getið að maðurinn hafi gengið inn á lögreglustöð í bænum Mortagne-sur-Sevre í vesturhluta Frakklands og játað á sig morðið.

Svo virðist sem presturinn hafi látist af völdum þungra högga en krufning á eftir að leiða það frekar í ljós. Banamaðurinn meinti gekk laus en var undir eftirliti. Jafnframt dvaldi hann um hríð á geðsjúkrahúsi, en var útskrifaður þaðan seinni hluta júlímánaðar. 

Heimildir herma jafnframt að maðurinn starfaði sem sjálfboðaliði við kirkjuna um nokkra hríð. Gerald Darmanin, innanríkisráðherra Frakklands, lýsti umsvifalaust yfir sorg vegna atburðarins og sagði kaþólikka í landinu eiga allan stuðning sinn vísan.

Ráðherrann sakaði jafnframt Marine LePen leiðtoga Þjóðfylkingarinnar um að reyna að efna til óvinafagnaðar þegar hún í kjölfar tíðinda af morðinu sakaði ríkisstjórnina um veiklyndi í málefnum innflytjenda. 

Meðal þess sem eyðilagðist í dómkirkjubrunanum í Nantes var sögufrægt orgel sem lifað hafði af frönsku byltinguna og loftárásir í síðari heimsstyrjöld. Ómetanlegir listmunir, steindir gluggar og málverk urðu einnig eldinum að bráð. 

Burðarvirki kirkjunnar er heilt en búist er við að viðgerðir á kirkjunni taki nokkur ár. Viðgerðir standa einnig yfir á Notre Dame kirkjunni í París sem stórskemmdist í bruna fimmtán mánuðum fyrir brunann í Nantes.

Eldsvoðarnir hafa kveikt spurningar um öryggi sögufrægra kirkjubygginga víðsvegar um Frakkland.

Fréttin var uppfærð klukkan 16:43.