Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Reglulega gýs á sjávarbotni og enginn tekur eftir því

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Varðskipinu Þór var í gærkvöldi siglt vestur undir Krýsuvíkurberg til þess að kanna hvort þar væri mögulega hafið eldgos á hafsbotni. Landhelgisgæslunni hafði borist tilkynning frá vegfarenda um dökkgráa reykjarstróka úti á hafi.

Þorvaldur Þórðarson, prófessor í eldfjallafræði sagði í viðtali við Ólöfu Rún Skúladóttur fréttamann að ekki sé hægt að útiloka að gosið hafi í gær.

„Við getum ekki útilokað neitt slíkt. Við vitum að það verða oft gos á úthafshryggnum sem við tökum ekki eftir fyrr en þau eru búin. Jafnvel ekki fyrr en við förum að kortleggja svæðið og sjáum nýja myndun á sjávarbotni. Hvort það sem sást í gær sé vitnisburður um gos eður ei er erfitt að segja,“ sagði Þorvaldur og bætti vði að nú sé verið að fara yfir gögn í von um að fá svar við spurningunni.

Hann segir það gerast reglulega að stór gos verði neðansjávar án þess að nokkur taki eftir.

„Það gerist mjög oft. Eitt virkasta eldgosabelti jarðar eru úthafshryggirnir sem liggja eftir miðjum úthöfunum hringinn í kringum jörðina. Þar gýs aftur og aftur og við tökum ekkert eftir því,“ sagði Þorvaldur.

Þorvaldur og Ólöf voru stödd á Reykjanesi, nærri gosstöðvunum og snerist umræða að stöðu eldgossins á Fagradalsfjalli.

„Það er í góðum gír og mér sýnist það vera komið í það horf sem það var í fyrir þremur eða fjórum dögum síðan. Þá kom smá hiksti en svo virðist það taka sig upp aftur og er komið í þennan gír með þessum fallegu hrinum,“ sagði Þorvaldur.

Hann sagði að nú streymi hraun í átt að Meradölum og kvikustrókar sjáist upp úr gígnum. „Svo dettur það niður og tekur sér pásu. Hleður í byssuna ef svo má að orði komast og svo kemur önnur hrina,“ sagði Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur.

Andri Magnús Eysteinsson