Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kjúklingur skóganna kominn í Árneshrepp

08.08.2021 - 16:31
Mynd með færslu
 Mynd: Elsa Maria Guðlaugs Drífudótt
Áhugi landsmanna á sveppum og sveppatínslu virðist fara vaxandi og sveppategundum í náttúru Íslands fjölgar. Sveppafræðingur fylgist vel með myndum sem meðlimir í sveppahópnum Funga Íslands birta, stundum finnur fólk nefnilega sveppi sem aldrei hafa sést á Íslandi áður. Appelsínuguli sveppurinn Brennisteinsbarði, er einn þeirra, en glöggur vegfarandi fann hann í byrjun ágústmánaðar og gerði sér mat úr. 

Glæný tegund á ættaróðalinu

Það stefnir í góða sveppauppskeru á landinu sunnan- og vestanverðu og á Vestfjörðum enda þónokkuð rignt þar í sumar. Elsa María Guðlaugs Drífudóttir, fréttamaður RÚV á Vesturlandi og Vestfjörðum, fann á dögunum fagurgulan og býsna stóran svepp á ættaróðali fjölskyldunnar í Árneshreppi á Ströndum, sá guli hafði breitt makindalega úr sér á milli tveggja drumba í stórri stæðu af rekaviði. Elsa grennslaðist fyrir um hvaða sveppur þetta væri í Facebook-hópnum Funga Íslands - sveppir ætir eður ei og fékk þau svör frá Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur, sveppafræðingi hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, að þetta væri Brennisteinsbarði og hann hefði aldrei fundist áður hér á landi

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa Maria Guðlaugs Drífudótt
Sveppurinn Brennisteinsbarði.

Sendi sýni úr sveppinum til Akureyrar

Guðríður bað Elsu að senda sér blöðku af sveppinum og sneið af rekaviðnum norður til Akureyrar svo hún gæti rannsakað hann betur.

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnlaugur Starri Gylfason - RÚV
Guðríður Gyða Eyjólfsdóttir, sveppafræðingur.

Sveppafundur Elsu er ekkert einsdæmi að sögn Guðríðar. „Fólk rekst á eina og eina tegund og ef einhverjir sem hafa auga fyrir sveppum fara oft um sama svæðið og átta sig allt í einu á því að þeir hafa ekki séð þennan svepp áður og skoða hann, þá reynist það oft tegund sem hefur ekki sést áður,“ segir Guðríður. 

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa Maria Guðlaugs Drífudótt
Flís úr sveppnum.

Fylgisveppir innfluttra trjáa hasla sér völl

Guðríður bendir á að ýmsar trjátegundir sem hafa verið fluttar hingað síðastliðna áratugi eða öld séu að þroskast og hverri tegund fylgir ákveðin tegund sveppa sem stundum skýtur upp kollinum og bætist við funguna sem fyrir er. Þá nefnir Guðríður að í Skógvistarverkefninu, samstarfsverkefni sem Skógræktin og Náttúrufræðistofnun Íslands réðust í fyrir nokkrum árum, hafi verið teknir út reitir í nokkrum skógum og við það fundist nokkrar tegundir hattsveppa sem aldrei hafi greinst hér áður. Fólk sem vill uppgötva eitthvað nýtt í náttúrunni ætti því kannski að snúa sér að sveppunum. Raunar hefur aðeins litlum hluta sveppa sem finnast í náttúrunni verið lýst. 

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa Maria Guðlaugs Drífudótt
Fleiri landnemasveppir gætu leynst í íslenskri náttúru.

Kjúklingur skóganna

Sveppurinn sem Elsa fann hefur verið kallaður kjúklingur skóganna (e. chicken of the woods) og er vinsæll og eftirsóttur matsveppur vestanhafs. Guðríður sagði Elsu að það ætti að vera í lagi að prófa að borða hann að því gefnu að viðurinn hefði ekki skaffað honum nein óæskileg efni. Úr varð að Elsa steikti sveppinn á pönnu, saltaði og pipraði. Hún segir heimilisfólk ekki hafa átt aukatekið orð yfir þessu lostæti sem hafi jú bragðast alveg eins og kjúklingur. Elsa María og fjölskylda hennar ætla að passa vel upp á drumbinn, enda viðbúið að nýr sveppur vaxi síðsumars ár hvert héðan í frá. 

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa Maria Guðlaugs Drífudótt
Sveppurinn tilbúinn til átu.
arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV