Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekkert lát á gróðureldunum í Grikklandi

08.08.2021 - 18:15
epaselect epa07772188 A firefighter battles a forest fire near the village of Makrimalli on the island of Evia, northeast of Athens, Greece, 13 August 2019.  EPA-EFE/KOSTAS TSIRONIS
Slökkviliðsmaður að störfum á Evia. Mynd: EPA-EFE - ANA-MPA
Bændur á Evia-eyju, næst stærstu eyju Grikklands, horfa á eigur sínar fuðra upp og bústofn sinn drepast í gróðureldum sem kviknuðu á þriðjudag. Íbúarnir segja ástandið skelfilegt.

Næst stærsta eyja Grikklands, Evia, er illa farin eftir gróðurelda sem illa gengur að hemja.   Fólk á erfitt með að flýja undan eldhafinu, þröngir vegir eru umluktir eldinum og tré og símastaurar loka þeim sums staðar.
Eyjan Evia, sem er austan við Aþenu, er vinsæll ferðamannastaður.

Þar kviknuðu eldarnir á þriðjudag. Þéttir furuskógar á eyjunni eru kjörinn eldsmatur sem gerir slökkvistarfið erfitt. Verst er staðan á norðanverðri eyjunni þar hafa nokkur þorp eyðilagst. Tæplega 600 slökkviliðsmenn berjast við eldana í þeim hópi eru rúmlega 200 kollegar þeirra frá Rúmeníu og Úkraínu. Sautján flugvélar og þyrlur eru notaðar við björgunaraðgerðirnar.

Bændur hafa horft upp á eigur sínar fuðra upp og bústofn sinn drepast í eldhafinu. Börn og gamlalmenni eru send frá eyjunni en þeir sem geta reyna að bjarga því sem bjargað verður. Bæjarstjórinn í Mantoudi á Evian-eyju segir í samtali við gríska sjónvarpsstöð að mörgum þorpum hafi verið bjargað vegna þess að ungt fólk hafi varist eldunum og virt að vettugi viðvaranir um að drífa sig á brott. Ástandið er sagt skelfilegt.

Í blaðinu Eleftheros Typos var haft eftir slökkviliðsmanni að vatnið úr slöngunum hefði gufað upp áður en það náði eldtungunum. 
Talsmaður grísku ríkisstjórnarinnar sagði í gærkvöldi að um tvö þúsund manns hafi verið flutti frá Evia-eyju og komið í skjól.  
Gróðureldar hafa brunnið í Grikklandi og í Tyrkalandi í hálfan mánuð, 8 hafa látist í Tyrklandi og tveir í Grikklandi.