Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Ég ætla að fara að veiða!“

Mynd: EPA / EPA

„Ég ætla að fara að veiða!“

08.08.2021 - 04:23
Þórir Hergeirsson hlakkar til að koma til Íslands að loknum Ólympíuleikum og fara að veiða. Hann er stoltur af liði sínu að rísa upp eftir tap í undanúrslitum handboltakeppninnar í Tókýó og taka bronsið í dag.

 

Noregur tapaði gegn Rússlandi í undanúrslitum í fyrradag og Þórir viðurkennir að vonbrigðin þá hafi verið hvetjandi í dag.

„Þegar við fengum nokkra tíma eftir Rússaleikinn þá snýst þetta yfir í smá reiði. Fyrst ertu skúffaður og svo ertu leiður og svo kemur smá reiði í þetta. Hleypir reiði í mannskapinn,“ sagði Þórir við RÚV eftir leik.

„Við ætluðum að fara héðan með medalíu og við ætlum að sýna að við erum betri en við sýndum á móti Rússum, þó það sé allt annar leikur.“

Þórir segir engan trega vera í norska liðinu að hafa ekki náð í úrslitaleikinn og gullmedalíuna.

„Það er bara gleði. Ég er búinn að vera í þessu svo lengi að ég er auðmjúkur í þessu og það er ekkert gefið að vinna medalíur, hvorki EM eða HM eða á Ólympíuleikum þó það sé orðinn vani hjá okkur. Ég veit hvað það liggur mikil vinna á bakvið þetta, hjá leikmönnum og öllum á bakvið þettta og veit hversu stórt þetta er.“

„Við settum stefnuna á gullið. Við vorum ekki nógu sterk í leiknum á móti Rússum og það kostaði okkur. Við tökum þá það sem við getum tekið og það var þriðja sætið og brons.“

Lygileg velgengni

Frá því Þórir tók við norska liðinu sem aðalþjálfari 2009 hefur hann rakað inn verðlaunum. Aðeins fjórum sinnum hefur hann ekki náð í verðlaun með liðinu. Hann segir þó ekki allt mælt í verðlaununum.

„Hvert mót hefur sinn sjarma. Á HM í Japan 2019 vantaði sjö leikmenn sem eru hér sem eru góðar. Vorum með ungt lið og fjórða sætið þar var frábært, finnst mér. Það er kannski alveg eins gott og að lenda í öðru eða þriðja sæti, miðað við hvaða mannskap við vorum með. Það þarf alltaf að meta þetta þannig. En kröfurnar eru stórar og markmiðin eru há og þá er ofsalega sárt að tapa undanúrslitum en það er mjög sterkt að standa upp aftur, beinn í baki og með reisn og klára þetta almennilega,“ segir Þórir. 

Ætlar heim til Íslands ef hann má

Það hefur verið mikið álag á Þóri og liði hans undanfarnar vikur. Nú sér hann fram á hvíld, ef hann fær leyfi.

„Ég vona að Þórólfur leyfi mér að koma til Íslands,“ segir hann kíminn.

„Ég ætla að fara heim að veiða. Ég ætla að fara næstu helgi og vera heima hjá fjölskyldunni og fara í veiðitúra og slappa af.“

Þórir segist þakklátur fyrir stuðninginn sem hann fær jafnan að heiman þegar norska liðið stendur í eldlínunni.

„Ég finn fyrir því þegar ég er heima að það er fylgst vel með og það gerir mann svolítið stoltan. Maður gleymir því aldrei að maður er Íslendingur, það má aldrei gleyma því. Það er sterkt í manni þannig að ég er ótrúlega stoltur að vera Íslendingur,“ segir Þórir Hergeirsson.

 

Tengdar fréttir

Ólympíuleikar

Risasigur færði Noregi bronsið