Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Aðeins sex metrar í að hraun flæði úr Meradölum

Hraun tekur að flæða úr Meradölum eftir þrjár vikur ef rennsli heldur áfram á sama hraða. Jarðvísindamenn voru þar við mælingar í dag, og telja sennilegt að brátt fari einnig að gjósa á hafsbotni úti fyrir Reykjanesi.

Hraunbreiðan í Meradölum þekur nú rúmlega fjóra ferkílómetra. Æðaber hraunelfur rennur niður hlíðar og engu líkara en hún sé til vitnis um lífið og kraftinn sem leynist undir yfirborði jarðar. Ármann Höskuldsson líkir þessu við æðabera manneskju en við sjáum aðeins lítinn hluta æðakerfisins.
Þorvaldur Þórðarson og Ármann Höskuldsson eldfjallafræðingar voru á vettvangi í dag við mælingar.
Ármann segir að úr því að gosið lifði sólarhringinn og meira en það og fór sér hægt, var ljóst frá upphafi að það gæti staðið í fremur langan tíma. Nú eru tæpir fimm mánuðir frá því að gosið hófst.

Eldfjallafræðingarnir segja hraunið á Reykjanesi einstaklega duglegt hraun. Það malli áfram og tjakkist nánast upp í Meradölum sem eiga ekki langt í að fyllast svo hraunið streymi út úr þeim.

 Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir  í rauntvöfalt hraun í Meradölum. Það er hraunið sem komi niður eftir hraunrásunum eða  æðunum. Það og það leggist yfir helluhraunið sem sé síðan  þar undir að tjakkast upp. Nánast allar tegundir hrauns er að finna í Meradölum. Helluhraun annars vegar og apalhraun hins vegar sem er úfnasta og seigasta hraunið að sögn Þorvaldar Þórðarsonar.  Þá megi nefna  klumpahraun,  uppbrotið helluhraun, hraunreipahraun og skæluhraun. 

Ármann Höskuldsson kveðst aldrei hafa séð neitt gos þessu líkt á Íslandi.
„Þetta er algjörlega einstakt gos sem kemur svona rólega upp til yfirborðs og ekkert virðist hafa áhrif á það. Það bara tekur undir sig landið eins og  því þóknast."

Reykur sást á hafi úti í gær og var hugsanlegt talið að farið væri að gjósa á hafsbotni úti fyrir Reykjanesi. Veðurstofan segir engin merki um það en Ármann Höskuldsson er hins vegar ekki frá því að svo gæti verið.

„Það er alls ekkert ólíklegt. Við erum með á Reykjanesi tvö eldgos á öld. Við vorum síðast með gos þar 73 og svo annað 26 það er á síðustu öld. Það er bara kominn tími á það að það verði lítil gos þar."

 

 

Ólöf Rún Skúladóttir
Fréttastofa RÚV