Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þúsundir flýja skógarelda í Grikklandi

06.08.2021 - 12:14
Mynd: EPA-EFE / ANA-MPA
Þúsundir Grikkja urðu að forða sér að heiman í nótt og í morgun vegna skógarelda. Baráttan við eldana er erfið og á eftir að versna þegar vindur vex í dag. Slökkviliðsmenn hafa fengið liðsauka og tækjabúnað frá öðrum Evrópuríkjum.

Eldarnir hafa breiðst hratt út um Attíkuskaga, þar sem höfuðborgin Aþena er í sveit sett. Stingandi loftmengun er í borginni og mikill hiti. Þúsundir íbúa í þorpum og bæjum á skaganum flúðu undan eldi og reyk í nótt. Eldarnir hafa náð til bæjarins Afidnes, þar sem hús brenna. Þaðan mátti heyra tvær sprengingar í morgun þegar kviknaði í iðnfyrirtækjum.

Almannavarnir sendu í dag út boð til íbúa í fjórum bæjum á norðanverðum skaganum um að forða sér. Í nótt voru á sjöunda hundrað íbúar eyjarinnar Evíu fluttir á brott með strandgæsluskipum og tiltækum bátum. 

Ekki er útlit fyrir að hiti fari yfir 39 stig í Grikklandi í dag en vindur er að aukast. Því er viðbúið að eldarnir breiðist út enn víðar. Slökkviliðsmenn hafa fengið liðsauka frá Frakklandi, Sviss, Rúmeníu, Svíþjóð og Kýpur og tækjabúnað að auki, svo sem slökkviliðsflugvélar.

Gróðureldar loga einnig í suðvesturhluta Tyrklands. Þá brennur gróður í Norður-Makedóníu þar sem stjórnvöld lýstu yfir neyðarástandi í dag. Í nágrannaríkjunum Albaníu og Búlgaríu loga einnig eldar.