Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Rauðglóandi kvika rennur stríðum straumum í Meradali

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Góður gangur er í eldgosinu í Geldingadölum þar sem kvikan stendur upp úr gígnum eftir rúmlega þriggja daga hlé og rauðglóandi hraunelfur rennur stríðum straumum niður hlíðina í nokkrum myndarlegum kvíslum og fossum og flúðum og lýsir upp myrka en milda ágústnóttina.

Mjög dró úr virkni á gosstöðvunum á mánudag og hefur hraun varla náð upp úr gígnum síðan, þangað til í kvöld. Virkni tók að aukast eilítið aðfaranótt fimmtudags og sást þá glitta í glóð í gegnum mugguna, en skyggni var lélegt og erfitt að fullyrða nokkuð um hraunrennsli.

Þegar líða tók á fimmtudag fór virkni hins vegar að aukast verulega, að sögn Böðvars Sveinssonar, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, og á ellefta tímanum í gærkvöld þurfti enginn að velkjast í vafa um það lengur að gosið er hvergi nærri hætt.

Kvikan streymir austur og suðaustur í Meradali eins og áður að sögn Böðvars, en hefur mögulega fundið sér einhverja nýja farvegi þangað meðfram þeim sem fyrir voru. Það gæti hugsanlega átt sér skýringu í því að í gær hrundi talsvert úr gígbarminum. Fylgjast má með þessu mikla sjónarspili í beinu streymi frá gosstöðvunum. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV