Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rannsókn sjávarbotnsins mikilvæg til framtíðar

Mynd með færslu
 Mynd: Havforskningsinstituttet í Nore
Rannsókn sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar og vísindamanna frá Bretlandi og Grænlandi í Grænlandssundi geta varpað ljósi á lífríkið og langtíma umhverfisbreytingar. Notaður er fjarstýrður kafbátur sem kemst á allt að tvöþúsund metra dýpi, búinn hágæða myndavél.

Rannsóknin hófst í ágústbyrjun og stendur fram í miðjan mánuðinn. Evrópusambandið greiðir fyrir afnot af mjög fullkomnu norsku rannsóknarskipi G.O. Sars. Beint er streymi frá leiðangrinum má sjá hér:

Guðmundur Þórðarson sviðsstjóri Botnsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar segir rannsóknina mikilvæga til að meta langtíma umhverfisbreytingar og einstakt tækifæri fyrir Íslendinga og Grænlendinga.

„Það eru helst svona svampar og kaldsjávarkórallar og slík dýr.“

Hefur þetta svæði verið rannsakað svona áður?

„Ekki þetta svæði þannig að þetta er mjög spennandi. Þarna er verið að taka sýni sem hefur ekki verið, sérstaklega yfir hjá Grænlandi hefur lítið sem ekkert verið skoðað.“

Guðmundur segir rannsóknum af þessu tagi ekki vera sinnt nægilega enda kostnaðarsamar. Hann segir tilganginn einkum að rannsaka búsvæði lífvera þar sem kaldur pólsjórinn streymir meðfram Austur-Grænlandi. Þarna neðansjávar sé hæsti foss í heimi. 

Mat fáist á hve ósnert vistkerfin eru, súrnun sjávar og áhrif umhverfisbreytinga en mikið hefur verið veitt á svæðunum gegnum tíðina.

„Þá sést hvort þetta eru svæði svæði sem ber að vernda í framtíðinni. Vegna þess að það tekur kóralla, kóralrif og slíkt tekur þúsundir ára að byggjast upp. Þannig að ef við vitum hvernig ástandið er núna getum við fylgst með því í framtíðinni, vegna súrnun sjávar og slíks.“

Ekki eru merki um miklar breytingar á hafstraumum þarna. Líkön sýni þó að áframhaldandi hlýnun jarðar geti valdið því að straumurinn geti stöðvast sem hefði alvarleg áhrif. 

„Það hefði náttúrulega hrikaleg áhrif, því að þegar þessi sjór síðan blandast við hlýrri sjó frá Golfstraumnum þá verður mikið uppstreymi næringar og þess vegna eru Halamið jafn gjöful og raun ber vitni.“