Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ekkert lát á skógareldum í vesturríkjum Bandaríkjanna

06.08.2021 - 05:44
Flames consume a home on Highway 89 as the Dixie Fire tears through the Greenville community of Plumas County, Calif., on Wednesday, Aug. 4, 2021. The fire leveled multiple historic buildings and dozens of homes in central Greenville. (AP Photo/Noah Berger)
Frá Greenville, þar sem merkar sögulegar minjar frá gullæðinu mikla hafa orðið eldi að bráð Mynd: AP
Flames from the Dixie Fire consume a home in the Indian Falls community of Plumas County, Calif., Saturday, July 24, 2021. The fire destroyed multiple residences as it tore through the area. (AP Photo/Noah Berger)
Dixie-eldurinn gleypti líka nágrannaþorp Greenville, Indian Falls Mynd: AP
Margir stórir skógareldar brenna enn í Kaliforníu, Oregon og fleiri vesturríkjum Bandaríkjanna og tugir þúsunda þurfa enn að halda sig fjarri heimilum sínum vegna þeirra. Hundruð hafa þegar misst heimili sín í eldhafið. Yfir 20.000 slökkviliðsmenn berjast við 97 stóra elda sem sviðið hafa hartnær 8.000 ferkílómetra skóg- og gróðurlendis í 13 ríkjum Bandaríkjanna.

Sá stærsti af ellefu slíkum í Kaliforníu kallast Dixie-eldurinn. Hann hefur logað í þrjár vikur og brennt yfir 1.300 ferkílómetra af skógi og gróðurlendi. Í byrjun vikunnar virtist sem 5.000 manna slökkvilið væri að koma á hann einhverjum böndum en á miðvikudag brenndi hann þau bönd af sér og blossaði upp af endurnýjuðum krafti. Síðan þá hefur hann meðal annars lagt þorpið Greenville í rjúkandi rúst og nágrannaþorpið Indian Falls líka.

Greenville er fornfrægur og sögulegur smábær í fjöllum Norður-Kaliforníu sem átti blómaskeið sitt í gullæðinu mikla á seinni hluta 19. aldar. Um 160 kílómetrum norðar blossaði nýr eldur upp á miðvikudag, sem fengið hefur heitið River-eldurinn. Hann breiddist ógnarhratt út og hefur þegar gleypt um 40 byggingar, jafnt íbúðar- sem atvinnuhúsnæði, nærri smábænum Colfax. Um 6.000 manns hefur verið gert að flýja heimili sín nú þegar vegna þessa elds.

Helmingi stærra svæði brunnið í Kaliforníu en á sama tíma í fyrra

Miklir hitar og hlýir þurrir vindar hafa ýtt undir eldana á vesturströnd Bandaríkjanna og Kanada síðustu vikur og gera enn. Samkvæmt eldvarnaryfirvöldum í Kaliforníu hefur helmingi stærra svæði orðið gróðureldunum að bráð í ár en á sama tíma í fyrra.

Norðan kanadísku landamæranna, í Bresku Kólumbíu, loga enn hátt í 300 skógar- og gróðureldar, þar af 122 alveg stjórnlaust, samkvæmt eldvarnaryfirvöldum þar.