Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir ákvörðun færeysku Akstovunnar ekki halda vatni

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framkvæmdastjóri rafskútuleigunnar Hopps vonar að rafhlaupahjól fyrirtækisins verði komin aftur á göturnar í Þórshöfn í Færeyjum fyrir lok mánaðarins. Hopp flutti fimmtíu rafhlaupahjól til Þórshafnar á dögunum en færeyska lögreglan lagði hald á farartækin þar sem samgöngustofa Færeyja telur þau ólögleg.  

Segir málið byggja á misskilningi

Hjólin dúsa nú í kjallara lögreglustöðvarinnar í Þórshöfn. Eyþór Máni Steinarsson, framkvæmdastjóri Hopps, segir þetta allt byggja á misskilningi. Akstovan, það er samgöngustofan í Færeyjum, hafi upp á sitt einsdæmi ákveðið að skilgreina hjólin sem breytt, vélknúin farartæki án þess að ráðfæra sig við löggjafann. „Það er miður að lögreglan ákvað að fylgja fyrirmælum akstovunnar og taka hjólin inn en samkvæmt lögfræðingunum sem við töluðum við þarna úti, um hvernig ætti að gera þetta, þyrfti löggjafinn alltaf að taka svona ákvarðanir.“

Hopp hafi átt gott samstarf við borgaryfirvöld í Þórshöfn

Eyþór segir hjólin hafa verið flutt inn löglega og merkt sem rafskútur. Þá hafi fyrirtækið átt í jákvæðum samskiptum við borgaryfirvöld í Þórshöfn, sem hafi verið spennt fyrir þessari samgöngunýjung. Eyþór segir ekki halda vatni að skilgreina hjólin sem sem vasahjól (e. pocket bikes) , eða breytt, vélknúin ökutæki, eins og Samgöngustofa Færeyja geri, enda hafi þeim ekki verið breytt og ekkert að finna í skilgreiningunni á vasahjóli sem gefi til kynna að rafskútur falli í þann flokk. 

Vonar að ekki komi til dómsmáls

Hopp ætlar hvorki að una ákvörðun Akstovunnar né lögreglunnar og Eyþór segist fullviss um að Hopp vinni málið, fari það fyrir dómstóla. „Ég vona innilega að við náum að leysa þetta án þess að fara þangað.“
Hann gerir ráð fyrir því að hjólin verði fljótlega aftur komin á götur Þórshafnar, „bara fyrir mánaðamót“.

Útrás Hopps er ekki bundin við Færeyjar, en Hopp er til dæmis með starfsemi í tveimur bæjum á Spáni.