
Næsti faraldur verði faraldur kulnunar
Þekkjum ekki langtímaáhrif
„Mikilvægt er að hafa í huga að jafnvel heilsuhraustasta fólk sem fær væg einkenni við sýkingu getur átt við alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar að stríða um langa hríð og enn vitum við ekki hver raunveruleg áhrif af sjúkdómnum eru til lengri tíma,“ segir í minnisblaðinu.
Félagið ítrekar að starfsfólk í framlínu sé undir meira álagi í faraldrinum, auk þess sem það er útsettara fyrir smitum. Þá nefnir það sérstaklega almannavarnir, Landspítala, heilsugæslu, sjúkraflutninga, velferðarþjónustu við aldraða, fatlað fólk og sjúka.
Bregðast þarf strax við álagi á heilbrigðiskerfið með auknum fjárveitingum að sögn félagsins. Verði það ekki gert sé öryggi sjúklinga og starfsfólks ótryggt.
Starfsfólk fái fjárhagslega viðurkenningu
„BSRB vill að framlínustarfsfólki verði veitt fjárhagsleg viðurkenning fyrir framlag sitt til samfélagsins í störfum sínum með sérstökum álagsgreiðslum sem ákvarðaðar verði í samráði við stéttarfélögin,“ segir í minnisblaðinu. Starfsfólk hafi verið undir langvarandi álagi og lagt heilsu sína í hættu.
Skima fyrir „sjúklegri þreytu og kulnun“
Félagið leggur til að skimað verði fyrir sjúklegri þreytu og kulnun meðal framlínustarfsfólks.
„Þeirra á meðal er framlínustarfsfólk hins opinbera sem hefur nú í 18 mánuði borið hitann og þungann af faraldrinum í störfum sínum. Mikilvægt er að grípa sem fyrst í taumana ef geðheilbrigði starfsfólks fer hrakandi,“ segir í minnisblaðinu.