„Mig langaði frekar að vera prinsessan en prinsinn“

Mynd: Ólafur Helgi Móberg / Aðsend

„Mig langaði frekar að vera prinsessan en prinsinn“

05.08.2021 - 11:13

Höfundar

Þegar Ólafur Helgi Móberg var yngri elskaði hann barnaefni en þótti erfitt að spegla sig í því sem samkynhneigður drengur sem tengdi meira við prinsessurnar en prinsana. Í dag, fimmtudag, bregður hann sér reglulega í gerfi dragdrottningarinnar Starínu og fræðir börn um frelsi þeirra til að vera nákvæmlega þau sem þau óska sér.

Á fimmtudag klukkan tvö fyllir dragdrottningin og stjarnan Starína menningarhúsið Gerðuberg af allri sinni dýrð í tilefni Hinsegin daga. Hún verður með sögustund fyrir börnin þar sem áhersla verður lögð á sögur um hinsegin veruleika. Ólafur Helgi Móberg, maðurinn á bak við Starínu, kíkti í Síðdegisútvarpið á Rás 2 og sagði frá stjörnunni og sögustundinni. „Starína er prinsessa sem lenti á Íslandi í kringum árið 2003. Hún titlaði sig þá dragdrottningu Íslands og hefur síðan unnið hörðum höndum að því að breiða út hamingju,“ segir Ólafur um sköpunarverk sitt.

Starína er stjórstjarna og hagar sér eins og slík. Hugmyndin að sögustundinni kviknaði fyrir þremur árum þegar Starína fór að halda dragstund sem snerist um að lesa hinsegin sögur fyrir börn og kynna þeim veruleika hinsegin fólks og hinsegin barna og ólíkum fjölskyldumynstrum. „Mér finnst þetta mikilvægt sem samkynhneigður sem tengdi ekki við barnaefni en elskaði það út af lífinu. Mig langaði alltaf frekar að vera prinsessan en prinsinn,“ segir Ólafur. Hann lítur á það sem mikla gjöf að hinsegin efni sé framleitt fyrir börn í dag en hann saknaði þess sem barn. „Það myndi hafa kennt mér og sagt mér að ég væri allt í lagi.“

Ólafur segir mikilvægt að börn átti sig á að þau megi vera eins og þau vilja. „Það mega allir vera prinsessur ef þeir vilja og prinsar og alls konar verur,“ segir hann. Og Starína lætur það ekki á sig fá þó börn séu ófeimin að spyrja spurninga. „Starína hefur lent í alls konar spurningum og hún tekur þeim mjög vel og leikur með börnunum. Henni finnst ekkert að því að spyrja og engin spurning er óviðeigandi,“ segir Ólafur. „Þetta er bara fyrsta skrefið í átt að sigri Starínu.“

Starína hefur nú þegar saumað kjólinn sem hún ætlar að klæðast í dag og hún er í sumarskapi svo hún ákvað að vera með sólhatt. Fyrir þá sem hafa áhuga á hinsegin sögum og ljúfri stund með stórstjörnu þarf ekkert annað en að spritta sig og mæta á svæðið.

Rætt var við Ólaf Helga Móberg í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Terfismi á ekkert skylt við femínisma“

Bókmenntir

Talin íkveikjuhætta af ölvuðu hinsegin fólki