
Leitað eftir pólitískum sáttum í Venesúela
Norðmenn hafa milligöngu um viðræður hinna stríðandi pólitísku fylkinga. Þeir stungu upp á Mexíkó sem fundarstað og Andrés Manuel Lopez Obrador forseti tilkynnti í dag að fallist hefði verið á það. Hann minntist ekki á hvenær fundurinn færi fram en kvaðst vona að hann yrði árangursríkur og skilaði samkomulagi af einhverju tagi.
Maduro, forseti Venesúela, sagði í síðasta mánuði að viðræður við stjórnarandstöðuna færu fram í Mexíkó í ágúst. Hugsanlega tækju Bandaríkjamenn þátt í þeim. Áður hafði hann lýst því yfir að hann tæki þátt í slíkum fundi ef refsiaðgerðum alþjóðasamfélagsins gegn stjórn hans yrði aflétt og tryggt yrði að honum yrði ekki bolað frá völdum.
Fjöldi ríkja neitar að viðurkenna að Maduro hafi sigrað í forsetakosningum árið 2018 og lítur á Juan Guaido, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sem réttmætan leiðtoga Venesúela. Bandaríkin hafa haft forgöngu um að beita forsetann og stjórn hans efnahagsþvingunum. Þær og veruleg fjármálaleg óstjórn á undanförnum árum hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir Venesúelamenn.
Ein birtingarmynd þeirra er að seðlabankinn í Caracas tilkynnti í dag að sex núll yrðu skorin af bólívarnum, gjaldmiðli landsins, fyrsta október. Fimm núll voru skorin af honum fyrir þremur árum.
Stjórnvöld og stjórnarandstaða í Venesúela hittust síðast á sáttafundi á Barbados árið 2019. Hann bar engan árangur.