Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ísland orðið rautt

05.08.2021 - 10:45
Mynd með færslu
 Mynd: Brynjólfur Þór Guðmundsson - RÚV
Sóttvarnastofnun Evrópu hefur uppfært kort sitt þar sem ríki Evrópu eru litakóðuð með hliðsjón af stöðu kórónuveirufaraldursins. Ísland er orðið rautt og þar með komið í næsthæsta flokk samkvæmt skilgreiningum stofnunarinnar. Ísland var gult í síðustu viku og grænt í vikunni þar á undan. Kortið er uppfært á hverjum fimmtudegi og tekur mið af nýgengi smita á hverja 100 þúsund íbúa síðustu tvær vikur.

Mjög mismunandi hefur verið hversu alvarlegar fólk hefur metið afleiðingarnar af því að Ísland verði rautt. Það hefur breyst eftir því sem faraldrinum hefur undið fram. Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, sagði til dæmis 24. júlí að það hefði svakalegar afleiðingar fyrir ferðaþjónustuna ef Ísland yrði rautt á litakóðunarkorti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Á laugardag sagði Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, að áhrifin yrðu minni en áður var óttast. Þetta byggði Jóhannes Þór á upplýsingum sem hann hafði aflað sér í millitíðinni. „Mér sýnist að það séu tiltölulega fá lönd í Evrópu sem láta þessa stöðu núna hafa áhrif á bólusett fólk sem er að koma heim, en einhver þó. Það er lítið af afbókunum sem eru að verða núna vegna þessa. Eftirspurnarhlutfallið er eitthvað en ekki jafn mikið og búist var við.“

Í fréttum í gær kom fram að það hillti undir að bólusettir Íslendingar gætu ferðast til Bandaríkjanna.