Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hafa vart undan við að steikja ástarpunga á Möðrudal

05.08.2021 - 11:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Á sama tíma og umferðin um höfuðborgarsvæðið dróst saman hefur umferð um hringveginn aldrei verið meiri. Vertinn í vegsjoppunni á Möðrudal hefur fundið vel fyrir aukningunni og hafði vart undan við að steikja ástarpunga í júlí.

Höfuðborgarbúar duglegir að ferðast um landið

Tölur sem Vegagerðin tók saman sýna svart á hvítu hversu duglegir höfuðborgarbúar voru að ferðast um landið í nýliðnum júlímánuði. Þær sýna að umferð  dróst saman á öllum mælum Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu. Mest um Vesturlandsveg ofan Ártúnsbrekku eða um 7,3 prósent. Á sama tíma var slegið met í umferð um hringveginn. Jókst umferðin þar um 6 prósent frá því í júlí í fyrra. Þar munar mikið um aukninguna á Austurlandi sem nam rúmum 23 prósentum.

Sjá einnig: Metumferð á hringveginum

Átti ekki von á þessu

Friðleifur Ingi Brynjarsson verkefnisstjóri hjá Vegagerðinni segir tölurnar hafa komið nokkuð á óvart. „Já, ég átti ekki von á því að það yrði slegið met í júlí í akstri. Það var mun meiri umferð en ég átti von á," segir Friðleifur. 

Voru einhverjir sérstakir staðir fyrir norðan eða austan sem að fólk virtist flykkjast á?

„Það var svona hlutfallslega mesta aukningin um Mývatnsöræfi og Mývatnsheiði."

Fólk eltir veðrið

Já, landsmenn flykktust austur í land í sumar og fundu Vilhjálmur Vernharðsson og félagar í vegsjoppunni á Möðrudal vel fyrir því. „Þetta er miklu meira en maður bjóst við. Svo náttúrlega þegar veðrið er svona þá vitum við að Íslendingar elta veðrið mikið. Þegar maður fór að sjá fram í spárnar í lok júní og fram í júlí þá vissi maður að það yrði mikil traffík," segir Vilhjálmur. 

Þannig að þú hefur ekki haft undan við að steikja ástarpunga og sjóða kjötsúpu í sumar?

„Nei það er búið að vera nóg að gera í því, bara mjög gott."