Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Áskorun að halda úti hefðbundnu frístundastarfi

Mynd með færslu
 Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir - RÚV
Starfsfólk í sértæku frístundastarfi fyrir börn með fatlanir er hrætt við að smita skjólstæðinga sína af COVID-19. Smit hafa komið upp á frístundaheimilum víðs vegar um borgina í þessari fjórðu og stærstu bylgju faraldursins. Haraldur Sigurðsson, framkvæmdastjóri frístundamiðstöðvarinnar Kringlumýrar, segir að erfitt sé að halda úti algerlega hefðbundnu frístundastarfi.

Þótt ekki séu í gildi reglugerðir um sóttvarnaaðgerðir í skóla- eða frístundastarfi kýs starfsfólk að grípa til aðgerða sjálft til þess að vernda viðkvæma hópa. Það kjósi meðal annars að nota grímur í starfinu og reyni að koma í veg fyrir miklar hópamyndanir.

Mikilvægt að sporna við félagslegri einangrun

„Það eru allir að fara varlega og passa upp á sig. Félagsleg einangrun skiptir máli og við viljum að börnin upplifi að frístundastarfið sé með eins eðlilegum hætti og mögulegt er“ segir Haraldur. Hann segir ekki mikið um að foreldrar kjósi að halda börnum sínum heima í þessari bylgju faraldursins.

Starfsfólk frístundaheimila sóttist sjálft eftir örvunarskammti

„Þeim líður í raun og veru betur nú eftir að hafa fengið þau skilaboð að þau fái þennan aukaskammt“ segir Haraldur. En ekki var gert ráð fyrir starfsfólki frístundaheimila í upphaflegu skipulagi bólusetninga svokallaðs örvunarskammts fyrir starfsfólk grunnskóla. Haraldur sagði þau hafa gert athugasemd við þetta og fengið í framhaldi boð í bólusetningu.