Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Vel hefði mátt laga galla í kosningalögum

Mynd með færslu
 Mynd: Þórgunnur Oddsdóttir
Þingflokksformaður Framsóknarflokksins segir vert að skoða skekkju í kosningakerfinu sem stjórnmálafræðiprófessor hefur ítrekað bent á. Þingmaður Pírata segir furðulegt að það hafi ekki verið gert fyrir löngu því nægur hafi tíminn verið.

Núverandi kosningakerfi tryggir ekki samræmi milli atkvæðamagns og þingsæta, að því er Ólafur Þ. Harðarson sagði í viðtali við fréttastofu í síðustu viku. Leiðrétta mætti þessa skekkju í kosningakerfinu með einfaldri lagasetningu en stjórnarflokkarnir stóðu gegn tilraun stjórnarandstöðuflokka til þess á síðasta þingi.

Þurfum að átta okkur á misræminu 

Willum Þór Þórsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði í samtali við fréttastofu að málið væri allrar athygli vert og til alls fyrst að átta sig á því hvar misræmið lægi. Klárlega verðskuldaði málið umræðu og skoðun í framhaldinu. Hann sagði tillögur þingmanna stjórnarandstöðuflokka til breytinga á kosningalögum á síðasta þingi hafa komið of seint fram. Tíminn til afgreiðslu hafi verið of knappur og meiri umræðu hefði þurft þar til. 

Vandamálið lengi legið ljóst fyrir 

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata, er þessu ekki alls kostar sammála. Honum hefði þótt einboðið að nýta tækifærið fyrst á annað borð var verið að samþykkja heildarendurskoðun á kosningalögum að laga umrætt atriði sem er að hans sögn ekki annað en reikniskekkja í kerfinu. Andrés Ingi gefur lítið fyrir útskýringar þess eðlis að tími hafi ekki verið nægur til þess arna. 

„Þetta er atriði sem lá fyrir áður en var mælt fyrir um þessu frumvarpi um heildarendurskoðun,“ segir Andrés Ingi. „Þetta kom fram í minnisblaði frá Ólafi Harðarsyni í október og það var svo mælt fyrir málinu í desember. Þannig að á þeim tíma sem okkur auðnaðist að framkvæma þessa heildarendurskoðun á allri kosningalöggjöf landsins þá hefði verið hægðarleikur að taka þetta eina tæknilega atriði með í umfjöllun.“ 

Telur alla hljóta að vera sammála um að laga  

Andrés segist í raun ekki skilja af hverju það ætti að vera mótstaða gegn því að laga umrædda skekkju í kosningalöggjöfinni og vonast til að málið verði tekið fyrir á nýju þingi að lokum kosningum.  

„Að jafna vægið þannig á milli flokka þannig að flokkar séu ekki að fá inn aukamann umfram það sem vilji kjósenda kallar á, það hlýtur að vera eitthvað sem erum öll sammála um að laga.“