Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Það langar engan að endurtaka síðastliðið ár”

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Formaður Skólastjórafélags Íslands segir flesta kennara og skólastjórnendur nokkuð bjartsýna á komandi skólaár. Hann kallar eftir reglum og leiðbeiningum frá stjórnvöldum um verklag innan skólanna ef, og þegar, smit greinast.

Þorsteinn Sæberg, formaður Skólastjórafélagsins, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að það væru mjög skýr skilaboð frá stjórnvöldum að skólastarf hefjist í haust án takmarkana og að engar ákvarðanir verði teknar án samráðs við skólastjórnendur. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í gær að engar takmarkanir væru í gildi þegar kæmi að skólastarfi og undirbúningur ætti að miðast við það. Þorsteinn segir að breyta þurfi áherslum frá því sem var á síðasta skólaári. 

„Ef okkur á að takast að halda úti óbreyttu skólastarfi þarf að grípa inn í það með öðrum hætti, ef það kemur grunur um smit, heldur en að grípa til stöðugra lokana. Það þarf að finna út annað inngrip. Hvort sem það gætu verið hraðpróf eða einhverjir slíkir hlutir til að lágmarka viðbrögðin á hverjum tíma. Og það er það sem stjórnvöld þurfa virkilega að gera, í samvinnu við okkur, að vinna að. Auk þess sem þarf að koma í ljós á næstu dögum hver alvarleiki þessara veikinda er. En það langar engan að endurtaka síðastliðið ár.”