Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Snjallnet nýtt í gagnaver

04.08.2021 - 09:20
Mynd með færslu
 Mynd: Landsnet.is - RÚV
Landsnet hefur skrifað undir viljayfirlýsingu við rekstraraðila gagnavers á Blönduósi um aukinn flutning raforku til starfseminnar þar. 

 

Aukning í áföngum

Fyrirtækið Etix Everywhere Borealis starfrækir tvö gagnaver hér á landi, annað á Reykjanesi og hitt á Blönduósi. Með viljayfirlýsingunni við Landsnet mun fyrirtækið geta aukið umsvif sín en þegar eru á Blönduósi sex gagnaversbyggingar. Mun aukningin verða í áföngum, þar sem í fyrsta áfanga verður nýtt svokallað snjallnet til að auka flutning og tryggja rekstraröryggi. 

Björn Brynjúlfsson, framkvæmdastjóri Etix Everywhere Borealis, segir snjallnetið þróað til að geta nýtt raforkuna betur. „Þar með er hægt að stýra kerfinu betur og í rauninni fyrir vikið nýta það betur. Og þar með nýtast núverandi innviðir betur og í rauninni hægt að nýta orkuframleiðsluna á sama tíma betur þannig að þetta er mjög jákvætt og mjög umhverfisvæn nálgun í fullnýtingu á orku,“ segir Björn.
 

Ísland henti vel fyrir gagnaver

Mörg gagnaver hafa risið á Íslandi síðustu ár en Björn telur Ísland henta vel fyrir starfsemi þeirra. Hér sé orkan framleidd með umhverfisvænni hætti en víðast annars staðar. Staðsetning gagnavera skipti í raun litlu máli þar sem gagnaver, til dæmis á Íslandi, geti afhent tilbúna vöru hvar sem er í heiminum á einu augnabliki. 

Björn segir að Ísland sé einnig ákjósanlegt fyrir gagnaver vegna kaldra veðurskilyrða og það sé hægt að kæla á hentugan máta. „Bæði þarf að fjárfesta minna í kælibúnaði og á sama tíma er aukakostnaður vegna kælingar
mun lægri en á öðrum stöðum. Við grínumst stundum með það að loksins sé rokið og rigningin orðin tekjulind,“ segir Björn.