Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segir tveggja metra reglu og samkomubann skaða greinina

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar segir það myndi hafa mikil áhrif á ferðaþjónustuna ef sett yrði á tveggja metra regla eða strangar samkomutakmarkanir. Hún vonast til að ný flokkun landsins hjá sóttvarnastofnun Bandaríkjanna hafi lítil áhrif á ferðahegðun.

Vara Bandaríkjamenn við verðum til Íslands

Sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna varar við ferðalögum til Íslands og hvetur óbólusetta Bandaríkjamenn til að ferðast ekki hingað að nauðsynjalausu. Ísland er nú flokkað í næsthæsta áhættuflokki þar í landi.

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir flokkanir sem þessar alltaf hafa einhver áhrif á ferðahegðun fólks. 

Þetta virðist ekki hafa áhrif á bólusetta gesti, eða bólusetta Bandaríkjamenn, og það hafa eingöngu bólusettir Bandaríkjamenn verið að koma hingað síðustu mánuði. Þannig að við vonum að áhrifin af þessu verði helst engin. 

Afstaða forsvarsmanna ferðaþjónustunnar varðandi þau áhrif sem litur Íslands á litakóðunarkortum hefur á greinina, hefur verið nokkuð fljótandi síðustu vikur. Ýmist var það talið mjög slæmt að Ísland yrði annað en grænt, eða að það skipti litlu máli. Bjarnheiður segir ástæðuna vera síbreytilegar forsendur í heiminum öllum, og sömuleiðis þær sem liggja að baki kortunum, þá sérstaklega kortinu frá sóttvarnastofnun Evrópu, þar sem Ísland verður rautt á næstu uppfærslu. 

„Það var svona alfa og ómega í þessum ferðaráðleggingum lengi vel, en hins vegar þá er þetta að breytast núna og einstök ríki eru farin að taka fleiri þætti inn í sitt áhættumat, þannig að þetta eru ekki lengur bara smittölur eða hlutfall jákvæðra sýna af sýnatökum sem eru lögð til grundvallar, heldur miklu fleiri þættir. Við sjáum breytingu á þessu greinilega og teljum að þetta hafi ekki eins mikil áhrif eins og bara fyrir nokkrum vikum síðan,” segir Bjarnheiður. 

Hvort heldurðu að fæli meira frá, litakóðunarkerfi, eða áhættumat viðkomandi lands varðandi fjölda smita, eða hversu strangar takmarkanir eru innanlands. 

„Eins og þær eru núna þá hafa þær sáralítil áhrif á heildarsamhengið í rekstri ferðaþjónustunnar. En ef að samkomutakmarkanir yrðu mjög strangar, þá mundi það strax hafa áhrif. Og eins ef tveggja metra reglan yrði tekin upp, þannig að hún hefði áhrif á hópferðir. Þannig að svarið er: Það fer algjörlega eftir því hversu strangar þessar takmarkanir innanlands yrðu.”