Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ráðherrar funda stíft í dag

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Forsætisráðherra og fleiri ráðherrar funda í dag með ýmsum hagsmunaaðilum um þá stöðu sem upp er komin í kórónuveirufaraldrinum. Meðal þeirra eru fulltrúar úr menningargeiranum. Formaður Bandalags íslenskra listamanna segir að hugsanlega verði sýningahaldi breytt til lengri tíma.

Samkvæmt upplýsingum úr forsætisráðuneytinu verður Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á stífum fundum í dag. Meðal þeirra sem kallaðir hafa verið á fund forsætisráðherra eru fulltrúar úr listageiranum og íþróttahreyfingunni og þar verða rædd áhrif kórónuveirufaraldursins á fyrirkomulag viðburða. Á fundinum verða, auk forsætisráðherra, menntamálaráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, efnahagsráðherra og heilbrigðisráðherra. Erling Jóhannesson, formaður Bandalags íslenskra listamanna, segist vonast til að þar komi fram lausnir til þess að hægt verði að halda úti menningarstarfi með einhverjum hætti.

„Við erum aftur að fara inn í vetur með sömu formerkjum og síðastliðinn vetur, eitthvað ástand sem við vorum að vonast til að væri liðið,“ segir Erling. „Þetta snertir öll okkar samskipti og samveru sem samfélag. Þetta snertir leikhúsheiminn, tónlistargeirann, þetta snertir allt námskeiðshald – í rauninni allt starf listamanna og ekki síður samskipti listamanna við sitt fólk sem eru áheyrendur, njótendur lista og menningar.“

Erling segir að fjölmörg stór verkefni hafi verið í biðstöðu. Stórir viðburðir hafi verið tilbúnir til sýningar í eitt og hálft ár og ekki sé hægt að halda þannig áfram. Hingað til hafi ráðstafanir verið miðaðar við nokkra mánuði, hugsanlega sé kominn tími til að líta til lengri tíma.

„Kannski eru þetta vangavelturnar um það að við þurfum að fara að horfast í augu við að umhverfi menningar og viðburða mun líta kannski öðruvísi út næsta vetur, þarnæsta vetur, næstu árin.“ 

Erling segir að hugsanlega muni fyrirkomulag sýningahalds og menningarviðburða breytast til frambúðar. „Erum við að horfa fram á breytt landslag til lengri tíma? Er tími stórsýninganna einhvern veginn liðinn,“ spyr Erling.