Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

McLaughlin bætti heimsmetið sitt í 400 m grindahlaupi

epa09392935 Sydney McLaughlin of the US celebrates winning the Women's 400m Hurdles during the Athletics events of the Tokyo 2020 Olympic Games at the Olympic Stadium in Tokyo, Japan, 04 August 2021.  EPA-EFE/VALDRIN XHEMAJ
 Mynd: EPA-EFE - EPA

McLaughlin bætti heimsmetið sitt í 400 m grindahlaupi

04.08.2021 - 02:44
Annan daginn í röð féll heimsmet í 400 m grindahlaupi á Ólympíuleikunum í Tókýó. Nú var það Sydney McLaughlin frá Bandaríkjunum sem bætti eigið heimsmet í kvennaflokki þegar hún tryggði sér um leið sín fyrstu Ólympíuverðlaun og það gull.

Dalilah Muhammad sem varð Ólympíumeistari í Ríó 2016 og heimsmeistari í Doha 2019 byrjaði hlaupið best og hljóp mjög vel. Það gerði hin unga og efnilega Femke Bol líka. En þegar leið á hlaupið náði McLaughlin þeim. Frábær endasprettur hennar tryggði McLaughlin svo sigurinn. Hún kom í mark á 51,46 sek. Hún bætti þar með eigið heimsmet sem hún setti fyrr í sumar um 44/100 úr sek. Fyrra heimsmet hennar var 51,90 sek. Það er því um talsverða bætingu að ræða.

Dalilah Muhammad varð önnur og vann silfur. Hún hljóp á næstbesta tíma sögunnar, 51,58 sek. Femke Bol frá Hollandi vann svo bronsið á Evrópumeti, 52,03 sek.

Þetta er annan daginn í röð sem heimsmet í 400 m grindahlaupi fellur, því Norðmaðurinn Karsten Warholm stórbætti eigið heimsmet í karlaflokki. Auk þessarra tveggja heimsmeta sem fallið hafa í 400 m grindahlaupi hefur svo heimsmetið í þrístökki kvenna einnig fallið á leikunum. Yulimar Rojas frá Venesúela setti heimsmet í þeirri grein fyrr á þessum Ólympíuleikum í Tókýó.

Tengdar fréttir

Ólympíuleikar

Warholm setti ótrúlegt heimsmet

Ólympíuleikar

Bætti 26 ára gamalt heimsmet um 17 sentímetra