Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Lagalistar Bítlanna seldir á uppboði

Mynd með færslu
 Mynd: Bonhams

Lagalistar Bítlanna seldir á uppboði

04.08.2021 - 17:29

Höfundar

Búist er við að 150-250 þúsund dollarar fáist fyrir handskrifaða lagalista sem bresku Bítlarnir, The Beatles, notuðu á tónleikum snemma á ferlinum. Þeir verða boðnir upp hjá Bonhams-uppboðshúsinu í haust.

Báðir lagalistarnir eru með rithönd Pauls McCartneys. Annar er frá tónleikum í Grosvenor-danshúsinu í Liscard á Englandi vorið 1960, áður en Pete Best gerðist trommuleikari Bítlanna. Hinn er frá 17. apríl 1963 á Majestic-skemmtistaðnum í Luton, þegar Bítlaæðið var við það að breiðast út um Bretland.

Á listunum voru aðallega popp- og rokklög frá sjötta áratugnum í upphafi rokktímans en athygli vekur að á þeim eldri er lagið One After 909. Það kom ekki út á plötu fyrr en árið 1970. Talið er að John Lennon og Paul McCartney hafi samið það árið 1957. Á seinni listanum eru fáein frumsamin lög, þar á meðal From Me To You sem kom út á plötu sex dögum fyrir tónleikana.

Lagalistar frá tónleikum Bítlanna eru afar sjaldgæfir, líkast til ekki fleiri en átta. Þeir eru því eftirsóttir af söfnurum. Sérfræðingar Bonhams búast við að 150 til 250 þúsund dollarar fáist fyrir hvorn um sig.

Bítlarnir léku á meira en eitt þúsund tónleikum frá því að hljómsveitin var stofnuð þar til hún hætti hljómleikahaldi árið 1966. Á þessum árum tíðkaðist ekki að halda upp á handskrifuð bréfsnifsi eins og lagalista hljómsveitanna. Ólíklegt þótti að í þeim fælust nokkur verðmæti. Þeir enduðu því flestir í ruslinu.