Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bann við útburði leigjenda í vanskilum framlengt

04.08.2021 - 05:28
Mynd með færslu
 Mynd: Jim Gathany - Wikimedia Commons
Bann við útburði leigjenda í vanskilum hefur verið framlengt til 3. október, að fyrirmælum bandarísku sóttvarnastofnunarinnar, CDC. Fyrra bann rann út á mánudaginn var og er talið að útburður og heimilisleysi hafi vofað yfir allt að 3.6 milljónum Bandaríkjamanna.

Það var sóttvarnastofnunin sem innleiddi bann við útburði leigenda í vanskilum á sínum tíma, þar sem heimsfaraldur kórónaveirunnar hefur bitnað harkalega á þeim sem höllustum fæti standa í bandarísku samfélagi líkt og víða annars staðar.

Milljónir misstu stóran hluta tekna sinna vegna efnahagskreppunnar sem fylgdi faraldrinum, lentu í erfiðleikum við standa í skilum með húsaleiguna og áttu því á hættu að lenda á götunni.

Heimilisleysi ógnar lýðheilsu og ýtir undir útbreiðslu COVID-19

Bannið var meðal annars rökstutt með því að víðtækt heimilisleysi væri bein ógn við líf og heilsu fólks og ýtti þar að auki undir enn frekari útbreiðslu veirunnar, sem magnaði þá ógn enn frekar. Framlengingin er einkum rökstudd með því að einstök ríki hafi dregið það allt of lengi að útdeila fjárhagsstuðningi alríkissins, sem beinlínis sé ætlaður til að hjálpa fólki að greiða húsaleiguna.

Í frétt AP-fréttastofunnar segir að bannið gildi alstaðar þar sem kórónaveirusmit séu ýmist útbreidd eða mjög útbreidd, og það eigi við um nokkurn veginn 90 prósent Bandaríkjanna. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV