Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

50 rafskútur kyrrsettar í Þórshöfn

04.08.2021 - 20:17
Mynd: RÚV / RÚV
Færeyska lögreglan hefur lagt hald á 50 rafskútur frá íslenska fyrirtækinu Hopp. Ástæðan er að færeysk yfirvöld hafa skilgreint rafskúturnar sem breytt vélhjól sem ekki séu leyfð í Færeyjum.

Fjarlægðu allar rafskútur

Lögreglan í Þórshöfn fjarlægði allar rafskúturnar í lok Ólafsvöku, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að þær stóðu almenningi til boða.

Ebbi Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Hopp í Færeyjum, er undrandi. „Ég hafði fengið þær upplýsingar að þetta teldist breytt vélhjól. Ég fór til lögreglunnar en hún getur ekki fullyrt hvort ég hafi brotið lög eða hvaða lög,“ segir Ebbe. Þangað til úr því fæst skorið eru öll Hopphjól í haldi.

Ebbi segir að Hopp hafi farið að öllum lögum og reglum.

„Við fluttum hjólin inn á löglegan hátt og höfum greitt af þeim virðisaukaskatt og toll. Við létum lögreglu vita áður en við fluttum inn hjólin og það eina sem lögreglan sagði var: Takk fyrir að tilkynna þetta.“

Nú segir lögreglan hins vegar að rafskúturnar séu ekki lögleg farartæki.

Michael Boolsen, fógeti í Þórshöfn, segir að fyrir tveimur árum hafi annað fyrirtæki sótt um leyi til að reka rafskútur í Færeyjum. Þá hafi samgönguyfirvöld í Færeyjum sagt að hjólin teldust til þess sem Færeyingar kalla „pocket bikes“ og slík hjól séu ekki lögleg á eyjunum.

Ebbi segir að ekki sitji allir við sama borð. „Það sjá allir að þetta er ekki sami hluturinn,“ segir hann og sýnir fréttamanni mynd af svokölluðu pocket-hjóli og rafskútu hlið við hlið.

Lovisa Petersen Glerfoss, sem situr í umferðaröryggisráði Færeyja, segir rafskúturnar hættuleg farartæki. „Fólk getur slasast alvarlega, fengið höfuðhögg, handleggsbrotnað eða fótbrotnað.“ Þá sé hætta á að fólk noti hjólin ef það er undir áhrifum áfengis.

Boolsen fógeti bendir á að Hopp geti leitað réttar síns fyrir dómstólum telji fyrirtækið brotið á sér. 

„Ég vona að málið endi ekki fyrir dómstólum. Það gæti farið svo og ég er tilbúinn ef það gerist. Ég vona að málið leysist fljótt og að öll verði glöð,“

segir Ebbi Ásgeirsson í Færeyjum.

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV
alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV