Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

4 lögreglumenn svipt sig lífi eftir árásina á þinghúsið

epa08923660 Pro-Trump protesters storm the grounds of the US Capitol, in Washington, DC, USA, 06 January 2021. Various groups of Trump supporters have broken into the US Capitol and rioted as Congress prepares to meet and certify the results of the 2020 US Presidential election.  EPA-EFE/WILL OLIVER
 Mynd: - - EPA
Fjórir úr hópi lögregluliðsins sem varði bandaríska þinghúsið þegar æstur múgur úr hópi stuðningsmanna Donalds Trumps réðist þar til inngöngu í janúar hafa nú fallið fyrir eigin hendi.

Yfirstjórn lögreglunnar í Washington DC greindi frá því á mánudag að lögreglumaðurinn Gunther Hashida hefði framið sjálfsvíg hinn 29. júlí síðastliðinn. Nokkrum klukkustundum síðar, seint á mánudagskvöld, staðfestu lögregluyfirvöld í höfuðborginni svo að lögreglumaðurinn Kyle deFreytag hefði framið sjálfsvíg 10. júlí. Starfsbræður þeirra, Jeffrey Smith og Howard Liebengood, sviptu sig báðir lífi í janúar.

Allir voru fjórmenningarnir í lögregluliðinu sem brást við árás þúsunda æstra stuðningsmanna Donalds Trumps á þinghúsið hinn 6. janúar síðastliðinn. Þeir Smith, Howard og Hashida höfðu allir verið í lögreglunni í á annan áratug, en DeFreytag, sem var þeirra yngstur, gekk til liðs við lögregluna fyrir fimm árum. Hann var 26 ára þegar hann lést.

DeFreytag var sendur á vettvang eftir að búið var að rýma þinghúsið og stóð þar vaktina til að framfylgja útgöngubanni, en hinir þrír voru allir í þeim tiltölulega fámenna hópi lögreglumanna sem þurftu að takast á við margfalt fjölmennara innrásarliðið. Um 600 manns hafa verið ákærðir fyrir sinn þátt í árásinni á þinghúsið.