Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Þúsundir berjast við eldana í Tyrklandi

03.08.2021 - 13:45
Tourists wait to be evacuated from smoke-engulfed Mazi area as wildfires rolled down the hill toward the seashore, in Bodrum, Mugla, Turkey, Sunday, Aug. 1, 2021. More than 100 wildfires have been brought under control in Turkey, according to officials. The forestry minister tweeted that five fires are continuing in the tourist destinations of Antalya and Mugla. (AP Photo/Emre Tazegul)
Ferðamenn bíða eftir því að verða fluttir sjóleiðis frá bænum Mazi í Mugla-héraði. Mynd: AP
Skógareldar í suðvesturhluta Tyrklands ógna varmaorkuveri við ferðamannabæinn Milas. Þeir hafa orðið að minnsta kosti átta manns að bana. Á sjötta þúsund berjast við eldana og notast við mönnuð og ómönnuð loftför og hundruð slökkvibíla.

 

Yfir fjörutíu stiga hiti er á svæðunum í suður- og suðvesturhluta Tyrklands við Miðjarðarhaf og Eyjahaf þar sem skógareldarnir loga glatt. Þeir hafa einnig valdið miklu tjóni á ökrum bænda, sem hafa orðið að forða sér til sjávar með búsmala sinn, þar á meðal til vinsælla ferðamannabæja á borð við Marmaris. Margir ferðamenn hafa flúið í bátum og ferjum.

Eldarnir loga í héruðunum Mugla, Antalya og Isparta. Bæjarstjórinn í Milas í Mugla-héraði greindi frá því á Twitter í dag að þeir stefndu í átt að varmaorkuveri. Yrði það eldinum að bráð væri ástandið komið á enn alvarlegra stig.

Að sögn Anadoulu-fréttastofunnar berjast á sjötta þúsund manns við eldana. Þau nota til þess yfir 850 dælubíla, 25 flugvélar, þar af níu ómannaðar og 52 þyrlur. Nokkrar rafmagnstruflanir hafa verið víða í Tyrklandi, þar á meðal í Istanbúl og höfuðborginni Ankara. Að sögn stjórnvalda er ástæðan sú að uppistöðulón eru að tæmast vegna þurrka og er raforkuframleiðslan óstöðug.

Stjórnvöld hafa verið harðlega gagnrýnd á samfélagsmiðlum fyrir lélegt skipulag á slökkvistarfinu. Fjölmiðlafulltrúi Erdogans forseta varar við falsfréttum af ástandinu. Best sé að treysta opinberum upplýsingum um það. Að hans sögn er búið að slökkva 125 elda, en eftir að ráða niðurlögum sjö.