„Það var mikil ást í lífi mínu“

Mynd: RÚV / RÚV

„Það var mikil ást í lífi mínu“

03.08.2021 - 14:58

Höfundar

„Að sjálfsögðu samdi ég texta um hana. Þakkargjörð fyrir að hafa komið inn í mitt líf,“ segir Haukur Heiðar Hauksson söngvari hljómsveitarinnar Diktu um stærsta lag sveitarinnar, Thank you. Það fjallar um konu hans, Guðnýju Kjartansdóttur. Hljómsveitina óraði ekki fyrir vinsældunum sem lagið átti eftir að vekja.

Árið 2009 sendi íslenska rokksveitin Dikta frá sér sína þriðju plötu sem nefnist Get it together. Hljómsveitina skipa þeir Haukur Heiðar Hauksson söngvari, Jón Þór Sigurðsson trommuleikari, Skúli Z. Gestsson bassaleikari og Jón Bjarni Pétursson gítarleikari. Jón Þór og Haukur kíktu í Geymt en ekki gleymt og ræddu við Þórð Helga Þórðarson um hljómsveitina og plötuna Get it together sem sló algjörlega í gegn.

Settur í straff fyrir að reykja

Þegar Dikta byrjaði var Haukur ekki í hljómsveitinni og nafnið ekki komið heldur. Þeir byrjuðu sem Grufl og voru grunnskólahljómsveit og var félagi þeirra Arnar Smári við hljóðnemann. Hann neyddist þó til að yfirgefa sveitina eftir skammarstrik í skólanum. „Svo var þetta eitthvað á þá leið, hvort hann var böstaður að reykja í skólanum. Hann var settur í straff og mátti ekki vera í æfingalókalinu sem við máttum vera í í skólanum.“

Bað hann í strætó að koma á æfingu

Rakel Guðmundsdóttir gekk þá til liðs við bandið og söng með þeim þegar hljómsveitin fékk nafnið Dikta og keppti í Músíktilraunum. Rakel hætti síðar og þá ákvað Skúli að ræða við Hauk þar sem báðir voru á leið með strætó í menntaskólann, Haukur á leið í MH en Skúli í Versló, og biðja hann að taka við míkrófóninum. „Hann bauð mér á æfingu í gömlu bæjarskrifstofunni í Garðabæ,“ segir Haukur. „Þarna mætti ég einn góðan veðurdag með gítarmagnarann minn og byrjaði að spila.“

Gítarleikari Skunk Anansie reyndist örlagavaldur

Þeir gáfu út fyrstu plötu sína, Andartak, árið 2002. Önnur plata þeirra, Hunting for happiness, var svo sú sem kom þeim á kortið og á henni nutu þeir aðstoðar Martins Kent, eða Ace, sem er gítarleikari bresku sveitarinnar Skunk Anansie. „Hann gjörbreytti heilmiklu,“ segir Haukur.

Vinsælasta lag plötunnar, Breaking the waves, segir hann til að mynda að hefði orðið glatað lag án Martins. „Hann sagði: Þetta getur ekki verið svona, þetta er glatað. Semdu nýtt viðlag.“

Kallaði lagið næringu fyrir sálina

Þegar þeir gerðu þriðju plötuna, Get it together, langaði þá að fara sömu leið og fá aðstoð frá einhverjum sem væri alvanur í bransnum. Á þessum tíma var Myspace einn vinsælasti samfélagsmiðillinn og þeir höfðu samband í gegnum hann við ýmsa tónlistarmenn. Jón Bjarni sendi til dæmis skilaboð upptökustjórann Ross Robinson, sem hefur starfað með hljómsveitum á borð við Korn, Limp Bizkit og Slip Knot. „Hann var eitt stærsta nafnið og Jón sendi skilaboð á hann,“ rifjar Haukur upp.

Jón Bjarni sendi upptökurisanum lagið Breaking the waves og bað hann að leggja við hlustir. Ross setti lagið á fóninn og líkaði mjög vel. Hann setti sig í samband við sveitina, lýsti yfir hrifningu á laginu og áhuga á samstarfi. „Hann kom með eitthvað fáránlegt komment og sagði vá maður, þetta er gott, að þetta væri næring fyrir sálina og „this guy bleeds“ um sönginn,“ segir Haukur.

„En svo kom hrun“

Ross hélt til Íslands frá LA til að hitta Diktu í æfingahúsnæði þeirra í Kópavogi og svo fóru þeir saman út að borða. „Þetta var mjög súrrealískt. Við höfðum verið að deila æfingaaðstöðu með Á móti sól en þarna var allt í einu kominn Sigtryggur Baldursson, Ross Robinson og Skrillex að horfa á okkur.“

Skrillex, sem í dag er frægur plötusnúður og tónlistarmaður, heitir í raun Sonny John Moore og var á þessum tíma söngvari í rokkbandi og vann sem aðstoðarmaður Robinsons. Robinson var að stofna eigið útgáfufyrirtæki og ákvað, eftir að hafa sest niður með drengjunum, að Dikta yrði önnur hljómsveitin sem kæmi út hjá því fyrirtæki. „En svo kom hrun,“ segir Jón.

Dollarinn tvöfaldaðist og þetta var ekki hægt

Plötufyrirtækið var úr sögunni og eina leiðin fyrir drengina til að láta drauminn um að vinna með Robinson rætast var nú að reiða allt fé úr eigin vasa. Þeir reiknuðu dæmið og sáu að það myndi kosta þá margar milljónir svo þeir urðu að kveðja þann draum. „Ross var að láta okkur hafa fáránlegan díl, brotabrot af því sem hann tekur vanalega, en dollarinn tvöfaldaðist í verði og þetta var bara ekki hægt.“

Þeir ákváðu því að gera plötuna sjálfir en nutu liðssinnis margra góðra manna og kvenna. Margt var tekið upp í æfingahúsnæðinu í Garðaskóla, heima hjá þeim og einnig í stúdíói úti á Granda. Þeir fengu loks Jens Bogren, sænskan pródúser, til að hljóðblanda plötuna.

Plötuútgáfan Kölski hringdi

Önnur plata þeirra hafði verið gefin út hjá Smekkleysu en þeir ákváðu að fara aðra leið með Get it together og gefa hana líka út sjálfir. „Við ákváðum að prenta sjálfir og koma í búðir,“ rifjar Haukur upp. „Það var planið þar til rétt áður en við settum hana í framleiðslu.“

Þá fengu þeir símtal frá tónlistarmanninum Barða Jóhannssyni sem gjarnan er kenndur við Bang Gang. „Hann hringir, frétti að við værum að gefa út plötu, og spyr hvort við viljum ekki gefa út hjá honum,“ segir Haukur. Barði hafði þá nýverið stofnað útgáfuna Kölska og þeir þáðu að gefa hana út þar.

Gífurlega ástfanginn og er enn

Stærsta lagið á plötunni og jafnframt það vinsælasta sem hljómsveitin hefur sent frá sér er lagið Thank You sem er rokkað ástarlag. Það sló í gegn á Íslandi og hljómaði í hverju viðtæki mánuðum saman. Viðtökurnar komu hljómsveitinni á óvart. „Við sömdum þetta lag saman í svona djammi,“ rifjar Haukur upp. „Við vorum að taka upp jólalag og bulla í stúdíóinu.“

Haukur samdi textann um þá reynslu sem hann var að ganga í gegnum þegar lagið var samið. „Ég var gífurlega ástfanginn á þessum tíma, og er reyndar enn. Af sömu manneskjunni, Guðnýju konunni minni,“ segir hann. „Það var mikil ást í gangi í lífi mínu og er, og það var mikil Guðný og ást í þessu lagi. Að sjálfsögðu samdi ég texta um hana, þakkargjörð fyrir að hafa komið inn í líf mitt.“ Drengirnir voru ánægðir með lagið en fannst það alls ekki besta lagið á plötunni.

Var hvorki né er mikið fyrir ást

„Mér fannst þetta óttalegt poppmeti,“ viðurkennir Jón. „Ég var svona; ég veit ekki hvort þetta fer í útvarp. Er ekkert viss um það,“ segir Haukur.

Jón hefði heldur ekki giskað á það. „Ég er kannski einn mesti beinhausinn í bandinu þannig að ég setti ekki peningana á þetta. Ég hvorki var né er mikið fyrir ást,“ segir hann. En þeir voru ekki sannspáir. „Þetta springur gjörsamlega út og er spilað endalaust á öllum útvarpsstöðvum.“

Þórður Helgi ræddi við Diktu í Geymt en ekki gleymt á Rás 2.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Að tengja hamingju við frægð er misskilningur“

Tónlist

Fór á tónleika eftir aðgerð með dren í hliðartösku