Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Syrtir í álinn í Suðurríkjunum vegna COVID-19

epa09388667 People queue in their cars to get to the COVID-19 coronavirus testing service at the testing location at the Tropical Park in Miami, Florida, USA, 02 August 2021. Florida State 10,207 people hospitalized with confirmed COVID-19 cases, according to data reported to the U.S. Department of Health & Human Services.  EPA-EFE/CRISTOBAL HERRERA-ULASHKEVICH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sjaldan eða aldrei hafa jafnmargir og nú legið inni með COVID-19 á sjúkrahúsum í Flórida og Louisiana í Bandaríkjunum. Ástæðan er gríðarleg útbreiðsla Delta-afbirgðis kórónuveirunnar.

Reuters hefur eftir lækni í Louisiana að enn eigi eftir að syrta í álinn. Á sunnudag lágu yfir tíu þúsund inni á covid-deildum sjúkrahúsa í Flórida og hafa aldrei verið fleiri á einum degi.

Viðbúið er að í það sama stefni í Louisiana innan sólarhrings. Ástandið þar í ríki varð til þess að ríkisstjórinn John Bel Edwards fyrirskipaði grímunotkun innanhúss á sjúkrastofnunum að nýju.

Til sama ráðs var tekið á sjúkrahúsum og öðrum opinberum byggingum við San Franscisco flóa í Kaliforníu. Á hinn bóginn gaf Ron DeSantis ríkisstjóri Flórída út tilskipun sem bannaði skólum að skylda börn til grímunotkunar.

Mary Mayhew, yfirmaður sjúkrahúsmála í Flórída segir fjölda sjúkrahúsinnlagna hafa fimmfaldast á einum mánuði en að dauðsföll séu langt undir því sem var þegar verst lét.

Hún segir yngra fólk veikjast en áður og greinilegt sé að það sé berskjaldað fyrir Delta-afbrigðinu.

Catherine O'Neal hjúkrunarforstjóri sjúkrahúss í Baton Rouge í Louisiana sagði á blaðamannafundi með Edwards ríkisstjóra að staðan væri grafalvarleg, starfsfólk sjúkrahúsa væri sjálft smitað og veikt þannig að nú skorti um sex þúsund heilbrigðisstarfsmenn í ríkinu öllu.

Hún hvetur íbúa ríkisins til að fara í bólusetningu.