Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Sigmundur Ernir nýr ritstjóri Fréttablaðsins

03.08.2021 - 11:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jón Þórisson er hættur sem ritstjóri Fréttablaðsins og Sigmundur Ernir Rúnarsson tekur við af honum. Sigmundur, sem verið hefur sjónvarpsstjóri á Hringbraut, verður jafnframt aðalritstjóri útgáfufélagsins Torgs ehf. sem rekur Fréttablaðið, DV, Markaðinn og Hringbraut.

Frá þessu er greint á vef Fréttablaðsins. Þar kemur fram að Jón, sem verið hefur ritstjóri á Fréttablaðinu frá haustinu 2019, snúi sér nú að öðrum verkum, en hann er lögfræðingur að mennt. Hann mun áfram vera varamaður í stjórn Torgs.

Sigmundur hefur komið víða við í fjölmiðlum, síðan hann hóf störf á blaðinu Vísi fyrir 40 árum. Hann hefur meðal annars starfað á Helgarpóstinum, Ríkissjónvarpinu, og Stöð 2. Hann varð ritstjóri DV 2001, fréttaritstjóri Fréttablaðsins 2004, fréttastjóri Stöðvar 2 2005 og var þingmaður fyrir Samfylkinguna í Norðausturkjördæmi frá 2009 til 2013.