Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sádar herða tökin gegn andófi og málfrelsi

epa07193215 Saudi Crown Prince Mohammed bin Salman poses for a photo with Tunisian President Beji Caid Essebsi (not pictured) at the Presidential castle of Carthage, Tunis, Tunisia, 27 November 2018. Saudi Crown Prince Mohammed bin Salman, aka MbS, arrived in Tunisia as part of his regional tour before attending the G20 summit in Argentina.  EPA-EFE/STRINGER
Mohammed bin Salman, krónprins í Sádi-Arabíu. Mynd: EPA-EFE - EPA
Mannréttindasamtök segja stjórnvöld í Sádi Arabíu hafa blygðunarlaust aukið ofsóknir gegn mannréttindafrömuðum og andófsfólki í landinu undanfarna sex mánuði og aftökum hefur fjölgað.

Einkum hefur spjótum verið beint að blaðamönnum og baráttufólki fyrir réttindum kvenna.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu mannréttindasamtakanna Amnesty International sem segja sádiarabísk stjórnvöld hafa dregið úr hörku um hríð samhliða fundi G20 ríkjanna þar í landi í nóvember síðastliðnum.

Samtökin segja hið minnsta þrettán hafa hlotið dóma í einkar ósanngjörnum réttarhöldum fyrir sérstökum glæpadómstól og að um fjörutíu hafi verið líflátin það sem af er ári. Það séu mun fleiri en allt árið 2020.

Algengt sé að fólk hljóti mjög þunga dóma fyrir sakleysislegustu ummæli á borð við gagnrýni á efnahagsstefnu stjórnvalda. Nokkrir andófsmenn sem voru látnir lausir úr fangelsi geti sig hvergi hreyft vegna ferðabanns stjórnvalda. 

Lynn Maalouf, talskona samtakanna, segir að um leið og Sádi Arabía vék úr kastljósi fjölmiðla eftir G20 fundinn hafi stjórnvöld hert á atlögum sínum gegn þeim sem láti skoðanir sínar í ljós og gagnrýni stjórnendur landsins.

Amnesty segir krónprinsinn Mohammed bin Salman, sem hefur ráðið ríkjum í Sádi Arabíu frá 2017, hafa ýtt undir frjálsræði í öðru orðinu en í hinu lagst af fullum þunga gegn andófi og málfrelsi í landinu.