Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ríkisstjóri sakaður um ósæmilegt athæfi

03.08.2021 - 16:42
Mynd með færslu
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York-ríkis, áreitti fjölda kvenna kynferðislega, þar á meðal samstarfskonur sínar. Óháð rannsókn á framferði hans leiddi þetta í ljós. 

Letitia James, ríkissaksóknari í New York, kynnti niðurstöður rannsóknarinnar á fundi með fréttamönnum í dag. Hún sagði ljóst að Cuomo hefði hvort tveggja brotið lög alríkisins og New York-ríkis með framferði sínu.

Bæði núverandi og fyrrverandi starfskonur ríkisstjóraembættisins greindu frá því að Cuomo hefði skapað fjandsamlegt og eitrað andrúmsloft fyrir þær á vinnustaðnum með ósiðlátu káfi og kynferðislegum athugasemdum af ýmsum toga. Þá kom einnig í ljós að ríkisstjórinn og nánir samstarfsmenn hans gripu til hefndaraðgerða gegn að minnsta kosti einni konu sem sagði frá ósiðsamlegu framferði hans á vinnustað.

Rannsóknin stóð í nokkra mánuði. Rætt var við hátt í tvö hundruð manns, þar á meðal samstarfsfólk hans og konur sem hafa stigið fram og og sagt frá áreitni hans. 

Andrew Cuomo neitar því eindregið að hafa áreitt samstarfskonur sínar kynferðislega. Hann neitar einnig að segja af sér, jafnvel þótt Demókratar á þingi og háttsettir embættismenn í New York hafi skorað á hann að gera það. Hann fór sjálfur fram á óháða rannsókn á hinu meinta ósiðlega framferði. Fyrr á þessu ári sagði Joe Biden forseti að ef ásakanir á hendur Cuomo yrðu sannaðar bæri honum að láta af embætti. 

Fréttin hefur verið uppfærð.