Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Maður fannst sofandi í ruslagámi með covid-úrgangi

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Lögreglunni í Reykjavík barst í morgun tilkynning um sofandi mann í ruslagámi á bak við farsóttarhúsið á Barónsstíg. Lögreglan gerði sóttvarnayfirvöldum viðvart og ákveðið var að setja manninn í sóttkví í ljósi þess að gámurinn var fullur af covid-úrgangi úr farsóttarhúsinu.

Maðurinn er á fertugsaldri og er ekki ókunnur afskiptum lögreglu, samkvæmt upplýsingum þaðan. Hann fannst steinsofandi og í annarlegu ástandi í ruslagámnum í morgun, en þangað fer allt rusl úr farsóttarhúsinu við Barónsstíg, Hótel Barón, sem er nú orðið fullt.

Í ljósi þess að maðurinn var talinn hafa orðið útsettur fyrir smiti í meira lagi, liggjandi innan um rusl frá fólki sýktu af covid, var ákveðið að senda hann strax í sóttkví í einu af farsóttarhúsunum. Samkvæmt heimildum fréttastofu var maðurinn ekki með staðfest smit nú seinnipartinn, en hann verður í sóttkví eitthvað áfram.