Ingólfsstræti málað í tilefni Hinsegin daga

Mynd: Reykjavik Pride / Reykjavik Pride

Ingólfsstræti málað í tilefni Hinsegin daga

03.08.2021 - 16:07

Höfundar

Hátíðin Hinsegin dagar hófst í dag og lýkur henni á sunnudaginn. Fyrsti viðburður hátíðarinnar fólst í því að svonefndar gleðirendur voru málaðar á götu í miðborg Reykjavíkur. Þema hátíðarinnar í ár er „hinsegin á öllum aldri.“

Sú venja hefur skapast á undanförnum árum að gata í miðborginni sé máluð í regnbogalitunum í tilefni hátíðarinnar. Til að mynda hefur Skólavörðustíg og Klapparstíg hlotnast sá heiður ásamt því að tröppurnar fyrir framan Menntaskólann í Reykjavík urðu fyrir valinu eitt árið.

Í þetta skiptið var ákveðið að mála Ingólfsstræti, milli Hverfisgötu og Laugavegar. Málningarvinnan hófst í hádeginu í dag og má sjá ferlið og afraksturinn í myndskeiðinu hér fyrir ofan.

Opnunarhátíð Hinsegin daga verður á sömu slóðum og klukkan átta í kvöld hefjast herlegheitin í Gamla bíói við Ingólfsstræti. Ljóst er að sóttvarnatakmarkanir setja svip sinn á hátíðahöldin.

Fjöldi viðburða er þó á dagskrá alla vikuna. Líkt og í fyrra verður engin gleðiganga í miðbænum í ár.