Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fleiri nýir fólksbílar seldir í ár

03.08.2021 - 09:57
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Á fyrstu sjö mánuðum ársins hafa selst 37% fleiri nýir fólksbílar en á sama tíma á síðasta ári. Þetta virðist aðallega skýrast af kaupum ökutækjaleiga.

Fram til júlí mánaðar á síðasta ári voru skráðir 5673 nýir fólksbílar, en þeir eru orðnir 7770 það sem af er ári. Í júlí voru skráðir 1730 nýir fólksbílar, sem er 16,9% aukning frá sama mánuði í fyrra.

Aukningin virðist þó ekki skýrast á kaupum einstaklinga, en kaup einstaklinga á nýjum fólksbílum jukust aðeins um 8,1% það sem af er ári. Kaup einstaklinga í júlí drógust saman um 4,8% milli ára.

Bílaleigurnar taka við sér

Það sem af er ári hafa ökutækjaleigur fest kaup á 3386 nýjum fólksbílum, en þeir voru aðeins 1585 á síðasta ári. Það er 114% aukning milli ára.

Ökutækjaleigur keyptu í júlí mánuði 51% fleiri nýja fólksbíla en á sama tíma á síðasta ári, eða 1095 bíla nú og 723 í fyrra.

Nýorkubílum fjölgar áfram

Svokallaðir nýorkubílar, það er rafmagns-, tengiltvinn-, hybrid- og metanbílar, voru um 65% allra seldra nýrra fólksbíla það sem af er ári. Hlutfallið var 51,4% á sama tíma í fyrra.

Í júlí seldist mest af nýjum Toyota fólksbílum, eða 360. Á eftir fylgja svo framleiðendurnir Kia, með 331 selda bíla, og Hyundai sem seldi 193.

Ólöf Rún Erlendsdóttir