Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fleiri Afgönum boðið hæli í Bandaríkjunum

epa09376685 US Secretary of State Antony Blinken and Deputy Prime Minister and Minister of Foreign Affairs Ahmad Nasser Al-Mohammad Al-Sabah (not seen) hold a joint press conference at Kuwait Foreign Ministry building, in Kuwait City, Kuwait, 29 July 2021. Blinken is visiting Kuwait for talks with top officials on bilateral cooperation, regional security and investment.  EPA-EFE/NOUFAL IBRAHIM
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Bandaríkjastjórn kveðst reiðubúin að fjölga í hópi þeirra Afgana sem fái hæli vestra. Harðir bardagar geisa um þrjár lykilborgir í Afganistan og Bandaríkjamenn óttast að þeim Afgönum sem liðsinntu þeim undanfarna tvo áratugi verði refsað grimmilega

Bandaríkjastjórn tilkynnti í dag vilja sinn að taka á móti þúsundum Afgana sem gætu verið í hættu heimafyrir vegna tengsla sinna við Bandaríkin.

Utanríkisráðuneytið hefur þegar heitið því að taka á móti tuttugu þúsund afgönskum túlkum sem aðstoðuðu Bandaríkjaher og sendifulltrúa allt frá árinu 2001.

Nú verði bætt við fólki sem starfaði fyrir bandarískar fréttaveitur og aðrar stofnanir ótengdar umsvifum ríkisins í landinu. 

Antony Blinken utanríkisráðherra segir Bandaríkin hafa skyldum að gegna gagnvart því fólki sem sé nú í mikilli hættu á að verða ofsótt og hegnt fyrir liðsinni sitt.

Verkefnið sé þó ekki auðvelt enda geti tekið langan tíma fyrir fólkið að komast á brott. Allt verði þó gert til aðstoðar þeim. 

Bandaríkjaher er smám saman að tygja sig brott frá Afganistan eftir tuttugu ára dvöl í landinu. Á sama tíma herða Talibanar mjög sókn sína og herja nú á nokkrar lykilborgir í landinu.

Þungir bardagar geisa nú í og við borgina Laskar Gah í suðurhluta landsins milli Talibana og stjórnarhersins með fulltingi Bandaríkjamanna. Óttast er að borgin geti fallið í hendur Talibana á hverri stundu sem yrði þungt áfall fyrir ríkisstjórn Afganistan.

Bardagar standa einnig um borgirnar Herat í vestri og Kandahar í suðri en eldflaugaárás Talibana á sunnudag olli talsverðu tjóni á flugvellinum við borgina.