Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Enn nokkurt jafnvægi milli innlagna og útskrifta

03.08.2021 - 13:02
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Fjórtán liggja nú á smitsjúkdómadeild Landspítalans með COVID-19 og tveir á gjörgæslu ef miðað er við stöðuna á hádegi í dag. Til stendur að útskrifa nokkra sjúklinga síðar í dag og jafnframt er búist við innlögnum á móti. Það er því nokkuð jafnvægi á milli innlagna og útskrifta eins er, að sögn Más Kristjánssonar, formanns farsóttarnefndar Landspítalans.

Býst ekki við að opna aðra deild næsta sólarhringinn

Már segir að á meðan jafnvægi sé milli fjölda þeirra sem leggjast inn og þeirra sem útskrifast þurfi ekki að opna nýja deild fyrir sjúklinga með COVID-19. Hann býst því ekki við að opna þurfi aðra deild næsta sólarhringinn. Hann bendir þó á að erfitt sé að spá fyrir um framtíðina og einungis sé vitað hver staðan er á þessari stundu. Landspítalinn sé þó búinn undir að grípa til þess ráðs og hefur lungnadeild verið gert viðvart um að hún sé næst í röðinni ef þörf verður á fleiri plássum. 

Veikindin mismunandi en ekki léttvæg

Allur gangur er á því hve lengi sjúklingar dvelja á deildinni. Einn einstaklingur hefur þegar legið inni í ellefu daga. Már bendir á að því veikari sem einstaklingur er þegar hann leggst inn, þeim mun lengri verður vistin. Hann segir að veikindi sjúklinga á deildinni séu ekki léttvæg en þau séu þó mismunandi. Þá hafi bólusettir almennt vægari einkenni en óbólusettir. 

„Bólusetningin er að hafa áhrif, okkur öllum til heilla. Hins vegar eru svo margir enn óbólusettir svo það er enn mikið fóður til sýkingar, “ sagði Már Kristjánsson í samtali við fréttastofu.