Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eitt til tvö laus pláss á smitsjúkdómadeildinni

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Smitsjúkdómadeild Landspítala er að fyllast. Yfirlæknir hennar segir að það eigi eftir að hafa áhrif á getu spítalans til að sinna hlutverki sínu. Tvær óbólusettar ófrískar konur hafa smitast í þessari bylgju. Nýgengi covid-smita hefur aldrei verið hærra á Íslandi en í dag. „Bylgjan er að þróast með alvarlegri hætti en við áttum von á,“ segir Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild. 

„Í dag erum við til dæmis að útskrifa fjóra og við erum þegar búin að leggja inn fimm á legudeildina og einn er að koma af gjörgæsludeildinni, þannig að smitsjúkdómadeildin er að komast á full afköst. Og það er í rauninni ekkert lát á veikindum fólks, eins og sést á tölunum á göngudeildinni,“ segir Már.

Már segir að einn til tveir til viðbótar geti lagst inn á smitsjúkdómadeildina. Fyllist hún þurfi að flytja sjúklinga á lungnadeildina. „Það þýðir að við þurfum að flytja þá sjúklinga, sem þar eru að fá meðferð í dag, eitthvað annað. Þetta þá dregur þá úr getu okkar til að sinna okkar hlutverki.“ Ef fram heldur sem horfir getur það haft áhrif á valkvæðar skurðaðgerðir eftir sumarleyfistímann.

Már segir að enginn vafi leiki á að bólusetningarnar séu að draga úr veikindum fólks. „Meira en helmingurinn er fullbólusettur. Hinir eru óbólusettir og tveir til þrír þar sem bólusetning er hafin. Þess ber að geta að í þessum hópi eru tveir einstaklingar sem eru barnshafandi konur sem greinast í kringum barnsfæðingu og voru ekki bólusettar vegna þess.“ 

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV