Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bólusetning 12-15 ára skýrist á næstu vikum

Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Það skýrist á næstu tveimur eða þremur vikum hvort mælt verði með bólusetningu barna á aldrinum 12-15 ára hér á landi. Þetta segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, í viðtali í Morgunútvarpinu á Rás 2. Enn er óljóst hvort skólastarf verði takmörkunum háð.

„Þetta er skólaaldur og foreldrar þurfa að vera samþykkir. Þótt bólusetningar muni mögulega fara fram í skólunum þá þarf samt að liggja fyrir samþykki foreldra. Við erum að fara að ræða það með heilsugæslunni hvernig er best að haga framkvæmdinni og upplýsingagjöf og öðru,“ segir hún. 

Þriðji skammturinn í undirbúningi

Þá er í undirbúningi að bjóða eldra fólki og viðkvæmum hópum þriðja skammtinn af bóluefni til að bæta vörnina.

„Það er búið að senda til álitsgjafar til ákveðinna sérfræðinga hvort það séu einhverjir hópar sem liggja ekki alveg í augum uppi fyrir okkur sem að þeim finnst að þurfi að örva. En það er komið svolítið af gögnum um það hverjum ætti að bjóða þriðja skammtinn. Það eru þeir sem eru með verulega ónæmisbælingu, en mögulega líka þeir elstu,“ segir Kamilla. 

Skiptir máli að fylgjast áfram með útbreiðslunni

Kamilla segir ljóst að þótt færri virðist veikjast alvarlega en áður sé enn mikilvægt að fylgjast með útbreiðslunni og að þeir sem kunni að hafa verið útsettir fari í sýnatöku, ekki síst til að vernda viðkvæma hópa sem eru óbólusettir eða með verra ónæmissvar við bólusetningu en aðrir. Ekki megi gleyma því að ákveðnir hópar séu í hættu. 

Í þessari viku megi búast við að komi í ljós hversu alvarlega þeir veikjast sem greindust með COVID-19 í síðustu viku, en áhrif smitanna í lok síðustu viku komi ekki í ljós fyrr en alveg í lok vikunnar. Hún segir að einkenni Delta-afbrigðisins geri vart við sig örlítið fyrr en fyrri afbrigða.